
Spænskir skiptinemar upplifa íslenskt skólastarf og félagslíf
Í febrúar fengum við góða gesti frá Sitges á Spáni í Verzlunarskólann.
Þetta voru þau Victor og Isaura, sem dvöldu hér sem hluti af skiptinemaverkefni á vegum Erasmus+. Gestgjafar þeirra voru Arndís, Sara Lillý, Viktor og Óðinn, nemendur á fyrsta ári.
Heimsóknin gekk í alla staði frábærlega. Victor og Isaura tóku þátt í kennslustundum með gestgjöfum sínum og kynntust þannig námi og skólastarfi í Verzló. Þau fluttu einnig kynningu um Spán og heimabæ sinn, Sitges og ekki laust við að nemendur öfunduðu þau smá þegar myndir af sólríkum ströndum og heitu veðri birtust á skjánum.
Aðspurð um upplifunina sögðu Victor og Isaura að það hefði verið samveran með gestgjöfunum og fjölskyldum þeirra sem stóð mest upp úr. Þau mynduðu sterk og góð tengsl og hlakka til að taka á móti vinum sínum í Sitges næsta haust, þegar íslensku nemendurnir heimsækja þau í skiptinámi.
Isaura hrósaði skólastarfinu í Verzló og sagði: „Mér finnst frábært að vera í tímum hér – allir eru svo opnir, hressir og ófeimnir!“ Victor tók heilshugar undir það. Þau voru einnig heilluð af félagslífinu í skólanum og fengu að upplifa Nemó, þar sem þeim þótti ótrúlegt að sjá þann metnað og kraft sem einkennir félagslífið.
Samstarfsverkefnið milli Verzló og Institut Joan Ramon Benaprés í Sitges er styrkt af Erasmus+ áætlun Evrópusambandsins. Báðir skólarnir eru vottaðir samkvæmt henni og í júní síðastliðnum heimsóttu kennarar Verzló skólann í Sitges. Þar var vel tekið á móti þeim og voru þeir sammála um að skólinn væri afar flottur.
Þetta er í annað sinn sem skammtímaskipti fara fram milli skólanna og verður að segjast að þetta er skemmtileg viðbót í fjölbreytta flóru alþjóðastarfsins og mjög í anda Erasmus+ markmiða Verzló.