Tengslanet og Þekkingarflóra prýða nú veggi Verzlunarskóla Íslands

Síðastliðinn föstudag fékk Verzlunarskóli Íslands listamanninn og fyrrum nemanda skólans, Pétur Geir Magnússon, í heimsókn til að kynna tvær nýjar lágmyndir eftir sig. Myndirnar eru staðsettar á veggjum annarar hæðar skólans.

Pétur Geir flutti ræðu við þetta tilefni þar sem hann sagði það mikinn heiður að eiga verk í skólanum. Pétur Geir, sem útskrifaðist frá skólanum árið 2014, rifjaði upp skólagöngu sína og lýsti jafnframt yfir ánægju sinni með listabraut skólans og sagði hana mikilvæga viðbót við námsvalið.

„Ég var á viðskiptabraut, viðskiptasviði og ég verð að segja að ég hefði nánast fórnað fótlegg fyrir að fá að vera á listabraut eins og nú er hægt að gera. Mér líst rosalega vel á þær breytingar skólans að nú sé komin listabraut og ég held að með þeirri viðbót við námsval skólans haldi Versló áfram að skipa sér í forystu til framtíðar því sköpun og hugmyndaauðgi skipta sífellt meira máli í framtíðinni“

Í ræðu sinni lagði Pétur Geir áherslu á þau tengsl sem myndast á skólagöngunni og hversu dýrmæt þau eru í framtíðinni. Hann sagði félagslífið hafa verið stóran hluta af sinni skólagöngu og að hann hafi kynnst fjölda fólks sem hefur reynst honum vel í lífinu. Þess vegna fékk annað verkið heitið TENGSLANET og tákna þræðirnir í verkinu tengslin sem myndast á námsárunum.

Hitt verkið nefnist ÞEKKINGARFLÓRA og endurspeglar fjölbreytileika nemenda skólans. Litríku fletirnir á verkinu eru tákn um nemendur skólans sem koma í skólann með ólíkan bakgrunn og lífsreynslu. Pétur Geir líkti fjölbreytileikanum við þekkingarflóru – safn fjölbreyttrar þekkingar og reynslu sem verður til þegar nemendur kynnast hvort öðru.

Verzlunarskóli Íslands þakkar Pétri Geir kærlega fyrir að miðla sinni einstöku sýn og list til skólans.

Aðrar fréttir