
Málefni norðurslóða rædd í Verzlunarskólanum
Föstudaginn 7. mars heimsóttu góðir gestir Verzlunarskóla Íslands til að ræða málefni norðurslóða, með sérstakri áherslu á Grænland.
Viðburðurinn var skipulagður af NGK bekknum í samstarfi við enskukennarann þeirra, Ármann Halldórsson. Kynnar voru Þórdís og Eldey, nemendur í NGK bekknum, sem stóðu sig afar vel.
Bogi Ágústsson, sem er vel þekktur fyrir störf sín hjá RÚV, flutti fróðlegt erindi þar sem hann ræddi um málefnið út frá sjónarhóli alþjóðastjórnmála. Hann fór meðal annars yfir umdeildar yfirlýsingar Bandaríkjaforseta um Grænland, stöðu sjálfstjórnarmála þar og almennt um válegt andrúmsloft á svæðinu.
Að loknu erindi Boga tók Sævar Helgi Bragason, gjarnan nefndur Stjörnu-Sævar við og fjallaði um stöðu umhverfismála víða um heim. Hann vakti athygli á því hvað við getum gert til að bæta umhverfið og lagði áherslu á mikilvægi þess að við ræktum samband okkar við náttúruna, enda erum við sjálf náttúruverur.
Þó að vissulega hafi verið þungt yfir að mörgu leyti þá enduðu þeir félagar á jákvæðum nótum. Þegar þeir voru beðnir að velja orð sem lýsti best norðurslóðum og fólkinu sem þar býr, valdi Bogi orðið virðing og lagði áherslu á þá virðingu sem ríkir innan og milli samfélaga Norðurlandanna. Hann var bjartsýnn á samstarf okkar til frambúðar. Sævar tók í sama streng og valdi orðið vinátta.
Viðburðurinn vakti mikla ánægju meðal viðstaddra. Auk NGK bekkjarins mættu margir nemendur af öðru ári ásamt kennurum sínum. Fjöldi vel úthugsaðra spurninga frá nemendum sýndi greinilega áhuga þeirra á málefnunum.
Verzlunarskólinn og NGK bekkurinn þakka Boga Ágústssyni og Sævari Helga Bragasyni innilega fyrir heimsóknina.