
Nemendur heimsækja Rio Tinto álverið
Rio Tinto álverið bauð nemendum úr 3-T og U í heimsókn að kynnast starfseminni og skoða verksmiðjuna.
Álverið framleiðir álbolta til útflutnings, tilbúna beint í framleiðslu á ýmsum álvörum s.s bílum og flugvélum.
Heimsóknin hófst á fræðslufyrirlestri um sögu álversins, sem var það fyrsta sem byggt var á Íslandi, auk kynningar á framleiðsluferlinu. Að því loknu var farið í vettvangsferð um helstu byggingar svæðisins. Nemendur fengu meðal annars að fara inn í kerskála, þar sem súrál er brætt í sérstökum kerjum og breytist í ál-málm. Þaðan er álið flutt í steypuskála þar sem sérstakar álblöndur eru framleiddar til útflutnings.
Nemendum fannst eins og þeir væru staddir í vísindamynd þegar þeir gengu um álverið enda mikið um sjálfvirk færibönd að hreyfa til risa sívalninga af áli og sjóðandi heitir ofnar með glóandi málmi blöstu við í lengstu byggingu landsins.