DANS2NS05
Danska, nám og störf í Danmörku
Áfanginn er framhald af DANS 2MM 05 (eða sambærilegum áfanga). Sjá nánar um hæfniviðmið í skólanámskrá VÍ. Námsmat kann að vera öðruvísi í fjarnámi og dagskóla.
Nemendur eru þjálfaðir í að lesa mismunandi texta sem innihalda algeng orð og orðasambönd.
Nemendur eru þjálfaðir í að beita mismunandi stílbrögðum við ritun texta auk þess að nýta þann orðaforða sem lestextarnir hafa.
Talþjálfun miðar að því að nemendur læri að orða hugsanir sínar skýrt og skilmerkilega í samtölum og frásögnum. Það gera þeir með því að senda reglulega hljóðskrár/vídeóupptökur til kennara.
Í áfanganum fer meðal annars fram kynning á starfs- og menntunarmöguleikum í Danmörku, norrænu samstarfi, umhverfismálum tengdum heimsmarkmiðunum og fréttatengdu efni.
Lesnar verða nokkrar smásögur, horft á danskt sjónvarpsefni frá streymisveitum og farið verður í málfræði þar sem áhersla er lögð á nafnorð og lýsingarorð, forsetningar og önnur smáorð ásamt ýmislegu tilfallandi efni. Nemendur eru þjálfaðir í að afla sér sjálfir viðeigandi gagna af Netinu.
Unnið verður með eftirfarandi efni:
- Skólar og menntun (skólakerfið í Danmörku ásamt lýðháskólunum).
- Störf og starfsvettvangur (ásamt Nordjob og mannúðarstörfum).
- Norræna samstarfið.
- Umhverfismál tengd heimsmarkmiðunum (loftslagsmál og neysla).
- Fréttatengd efni – ýmsir atburðir líðandi stundar.
- Þættir og annað efni á streymisveitum.
- Smásögur.
- Málfræði – nafnorð, lýsingarorð, forsetningar og önnur smáorð.
Eftirfarandi markmið eru unnin út frá „Evrópska tungumálarammanum“. Gengið er út frá hinum fimm færniþáttum tungumálakennslu; hlustun, lestri, samræðum, tali og ritun.
Eftir nám í DANS 2NS 05 er markmiðið að nemandi:
- HLUSTUN: – Geti skilið venjulegt talmál um efni sem hann þekkir og tengist vinnu hans, frístundum, skóla o.þ.h. (B1) – geti skilið í grófum dráttum aðalatriðin í mörgum útvarps- og sjónvarpsþáttum/streymisveitum um málefni líðandi stundar eða efni sem tengist honum persónulega eða faglega þegar talað er tiltölulega hægt og skýrt (B1).
- LESTUR: – Geti lesið greinar og skýrslur sem tengjast samtímanum þar sem fram koma ákveðin viðhorf eða skoðanir (B2) – geti skilið nútíma bókmenntatexta (B2).
- SAMRÆÐUR: – Geti tekist á við flestar aðstæður sem geta komið upp á ferðalagi í Danmörku (B1) – geti óundirbúinn tekið þátt í samræðum um efni sem hann þekkir, hefur áhuga á eða tengjast daglegu lífi (t.d. fjölskyldu, áhugamálum, starfi og ferðalögum) (B1) – geti auðveldlega lýst reynslu og atburðum, draumum sínum , væntingum og framtíðaráformum (B1).
- TAL: – Geti rökstutt stuttlega og útskýrt ákvarðanir sínar og fyrirætlanir (B1) – geti sagt sögu eða sagt frá söguþræði úr bókmenntum, þáttum úr sjónvarpi/streymisveitum eða öðru sambærilegu efni og lýst viðbrögðum sínum (B1).
- SKRIFT: – Geti skrifað skýra, nákvæma texta um ýmis efni sem tengjast áhugasviði hans (B2) – geti skrifað ritgerð um efni sem hann hefur lesið sér til um og fært rök fyrir skoðunum sínum (B2) – geti skrifað bréf og lagt áherslu á mikilvægi ýmissa atburða og reynslu (B2).
- ANNAÐ: – Viti hvernig hann getur aukið kunnáttu sína og færni í málinu, – öðlist öryggi með að nýta upplýsingatækni við nám og störf, – geri sér ljósa eigin ábyrgð og mikilvægi frumkvæðis og eigin vinnu í náminu – hafi fengið innsýn í danska siði, venjur og samskiptahefðir í daglegu lífi og önnur menningartengd atriði ásamt þekkingu á norrænu samstarfi – hafi fengið innsýn í umhverfismál tengd heimsmarkmiðunum og verið meðvitaður um atburði líðandi stundar – geti unnið einn eða með öðrum að lausn heildstæðra verkefna þar sem reynir á alla þætti málnotkunar og alhliða færni í málinu, bæði til þess að afla nýrrar þekkingar og til að miðla henni á skýran og skipulegan hátt – geti nýtt sér hjálpargögn á markvissan hátt – átti sig á notagildi dönskukunnáttunnar til að skilja sænsku og norsku.
Í lok áfangans verður lokapróf sem gildir 75% á móti verkefnum sem gilda 25% og sem unnin eru á önninni.
Lokaprófið samanstendur af:
- Hlustunar- og munnlegum hluta sem unninn er í lok annar, gildir samtals 15% af lokaprófi (hlustun 5% og munnlegur hluti 10%).
- Skriflegu prófi sem tekið er á prófstað, gildir 60% af lokaprófi. Í skriflega hlutanum er prófað í:
- Texta/lesskilningi – lesnir og ólesnir textar ásamt myndefni (ca. 50% í lokaprófi).
- Málnotkun – ritun, málfræði (ca. 35% í lokaprófi).
Lágmarkseinkunn á lokaprófi (skriflegt próf ásamt munnlegu- og hlustunarprófi = 75%) verður að vera samanlagt 4,5 svo að vinna annarinnar 25% verði reiknuð með til hækkunar.
- Textar (svo sem greinar, viðtöl, fréttir og umfjallanir) sem vistaðir verða á PDF-formi í kennslukerfinu.
- Smásögur og annað bókmenntaefni sem vistað verður á PDF-formi í kennslukerfi Moodle.
- Annað námsefni í kennslukerfi Moodle.
- Rafrænar orðabækur (ordnet.dk og islex.is) – Ókeypis.
- Rafræn orðabók (snara.is) – Þarf að kaupa áskrift.
- Danskur málfræðilykill – Þarf að kaupa.
- Padlet – (mikið af aukaefni sem nýtist nemendum vel).
- Duolingo – (tungumálaforrit).