2-N, velkomin í Verzló!

Við fögnum því að fá til okkar NGK-bekkinn, 2-N, sem hóf nám hér við skólann í annarbyrjun.

Þetta er fjölbreyttur og kraftmikill hópur sem saman stendur af Íslendingum, Færeyingum, Dönum og Grænlendingum. Þessi hópur mun án efa hafa jákvæð áhrif á skólastarfið og skapa skemmtilega stemningu á þessari önn.

Bekkurinn hefur lokið einu skólaári í Gribskov Menntaskólanum í Danmörku og einni önn við Miðnám á Kambsdali í Færeyjum. Á næsta skólaári heldur bekkurinn til Grænlands þar sem hann verður í námi við GUX í Sisimiut í heilan vetur. Námið þeirra fylgir danskri námskrá, sem þýðir að kennsla og námsmat fer að mestu fram á dönsku. Hins vegar nota þau enskuna mikið meðan þau eru á Íslandi, sem skapar frábært tækifæri fyrir aðra nemendur að æfa sig í dönsku og ensku með því að spjalla við þau og taka þátt í starfinu.

Verkefnið á Íslandi er stýrt af skólastjórnendum og alþjóðafulltrúa. Íslensku nemendurnir njóta nú kærkominnar annar með sínum fjölskyldum, á meðan erlendu nemendurnir dvelja hjá íslenskum fjölskyldum. Hér má lesa meira um NGK-verkefnið: Norður Atlantshafs­bekkurinn

Það er okkur sönn ánægja að fá NGK-bekkinn í Verzlunarskóla Íslands og við hlökkum til að hafa þau með okkur þessa önn.

Aðrar fréttir