2-Y í Danmörku 

8.- 12. september var 2-Y í Danmörku í Erasmus-ferð.

Bekkurinn hafði tekið á móti nemendum frá Skjern og Ringkøbing í apríl síðastliðnum, verið með þeim innan skóla sem utan og boðið þeim gistingu heima hjá sér á meðan á dvöl þeirra stóð. Ekki fór bekkurinn alla leið til þeirra í þetta sinn en fór í stað þess til Kaupmannahafnar, auk þess að heimsækja NGK-bekkinn, Norður-Atlantshafsbekkinn svokallaða, sem leggur stund á nám í Danmörku, Færeyjum, Grænlandi og á Íslandi.  

Í Kaupmannahöfn var farið í bráðskemmtilega og fróðlega sögugöngu um Íslendingaslóðir í Kaupmannahöfn og endaði sú ganga í Jónshúsi þar sem nemendur fengu leiðsögn um heimili Ingibjargar og Jóns, auk almennara spjalls, meðal annars um hvernig lífið er í Danmörku og fyrir Íslendinga þar.  

Ferðin til NGK-bekkjarins í Gribskov-menntaskólanum í Helsinge var nokkuð löng með tveimur lestum og rútu en þar var tekið á móti bekknum með mat og svo tók við kennslustund í fjölmiðlun, þar sem nemendur okkar voru teknir í viðtöl. Síðast en ekki síst var farið í leiki úti á skólalóð í góða veðrinu sem var mikið hópefli og góð skemmtun. Það verður gott fyrir nemendur NGK-bekkjarins að koma í Versló og sjá þar kunnugleg andlit þegar leiðin liggur til Íslands.  

Bekkurinn gerði sér einnig ferð í listasafnið í Humlebæk, Louisiana, og kynntist margs konar list þar og drakk í sig fallegt umhverfið.  

Þess utan fóru nemendur saman í Tívolí og sumir hverjir á fótboltaleik og áttu saman góðar stundir. Allir voru til hinnar mestu fyrirmyndar og ferðin bæði góð og fróðleg. Fararstjórar voru Guðrún Rannveig Stefánsdóttir og Hjördís Rut Sigurðardóttir.  

Aðrar fréttir