01.12.2023 Æsispennandi quidditch mót Miðvikudaginn 29. nóvember var lokaviðburðurinn í valáfanganum um Harry Potter. Þetta er hið víðþekkta quidditch mót þar sem vistirnar takast á og keppa í hinni göfugu galdraíþrótt quidditch, eða kvistbolta eins og hún heitir á íslensku. Keppt er samkvæmt sérhönnuðum húsreglum sem eru byggðar á alþjóðlegum reglum greinarinnar. Óhætt er að segja að metnaður hafi verið mikill og allt lagt í keppnina, búningar og stuðningslið voru glæsilegir og stemmingin mögnuð! Í fyrsta leik kepptu hinir aldagömlu féndur Gryffindor og Slytherin. Í lok leiksins náðu Gryffindor gullnu eldingunni og höfðu nauman sigur. Hlaupari með eldinguna var Andri Clausen og lét hann heldur betur hafa fyrir því að láta ná sér. Urðu uppi nokkrar deilur um úrslitin og dómgæslu eins og tilheyrir á alvöru kappleikjum. Næst í undanúrslitum kepptu Hufflepuff og Ravenclaw. Sóttu bæði liðin af hörku en sigur hafði Ravenclaw vegna margra marka, þrátt fyrir að Hufflepuff næði eldingunni. Sókn Ravenclaw var gríðarlega hörð, en lipurð og útsjónarsemi einkenndi leik Hufflepuff. Í úrslitum mættust síðan Gryffindor og Ravenclaw. Var hér boðið upp á mikla flugeldasýningu, glæsileg hlaup, sendingar og tilþrif í sókn og vörn – og nokkur mjög glæsileg mörk. Hámark leiksins var þegar gullna eldingin kom inn á og bárust þá leikar upp í rimla þar sem leitari Gryffindor nældi í eldinguna. Leikmaður mótsins telst Tómas Berg Þórðarson leitari Gryffindor liðsins, en hann náði eldingunni tvisvar og sýndi glæsilegan leik á vellinum sem sóknarmaður. Starfsmenn mótsins voru Ármann sem var dómari og Rebekka og Fannar sem voru línuverðir. Þriðjudaginn 5. desember verður svo afhentur vistabikarinn eftirsótti.