Alþjóðlegt NORD+ samstarf. Nemendur frá Finnlandi, Danmörku og Svíþjóð heimsækja Verslunarskóla Íslands

Dagana 1.–5. október tóku nemendur á 2. ári viðskiptabrautar á móti nemendum og kennurum frá Finnlandi, Danmörku og Svíþjóð í gegnum NORD+ samstarfsverkefnið.

Heimsóknin var liður í að því að efla samvinnu milli Norðurlandanna og dýpka skilning á mikilvægi félagslegrar sjálfbærni í nútímasamfélagi.

Íslensku nemendurnir, ásamt kennurum, tóku vel á móti gestunum og skipulögðu heimsóknir í fyrirtæki og stofnanir þar sem fjallað var um hlutverk félagslegrar sjálfbærni. Á dagskránni var m.a. göngutúr um miðbæ Reykjavíkur og heimsóknir til Landsbjargar, íþróttafélagsins Vals og Hins hússins. Gestirnir fengu innsýn í starfsemi þessara stofnana og hvernig félagsleg ábyrgð gegnir stóru hlutverki í daglegu starfi þeirra.

Nemendur fengu einnig einstakt tækifæri til að hitta forseta Íslands, Höllu Tómasdóttur, sem mætti í skólann til að taka þátt í hringborðsumræðum með nemendum. Þema umræðnanna var kærleikur.

Auk þess unnu nemendurnir saman í hópum í verkefni í skólanum sem sneri að því að bera saman þá  stoðþjónustu sem í boði er í löndunum fjórum. Verkefnið gaf nemendum tækifæri til að læra hver af öðrum og dýpka skilning sinn á félagslegri sjálfbærni. Hópurinn mun svo hittast aftur í Kaupmannahöfn í mars á næsta ári og halda samstarfinu áfram með áherslu á að þróa nýjar leiðir til að efla félagslega sjálfbærni á Norðurlöndunum.

 

Aðrar fréttir