Alþjóðlegur forvarnardagur sjálfsvíga

Kæru nemendur.

Í dag er 10. september, sem er Alþjóðlegur forvarnardagur sjálfsvíga. Gulur er litur sjálfsvígsforvarna og því er dagurinn í dag kallaður „Guli dagurinn“.

Markmiðið með þessum degi er meðal annars að minna okkur á mikilvægi geðræktar og sjálfsvígsforvarna. Okkur líður öllum stundum illa og það er mikilvægt að við séum meðvituð um að við þurfum aldrei að bera vanlíðan okkar ein. Við viljum nýta þetta tækifæri til að hvetja ykkur til að leita eftir stuðningi þegar þið þurfið á að halda. Í nemendaþjónustu Versló eru þrír námsráðgjafar og sálfræðingur sem þið getið alltaf leitað til.

Í tilefni dagsins vildum við senda ykkur eitt geðheilsuráð. Það er að gera góðverk. Góðverk geta haft jákvæð áhrif á líðan, bæði hjá þeim sem gerir góðverkið og þeim sem þiggur það. Góðverkin þurfa ekki að vera stór eða tímafrek. Dæmi um góðverk gæti verið að hrósa einhverjum, taka upp rusl eða bjóða samnemanda sem var veikur heima að senda á hann glósur. Ef við leggjum okkur fram um að sýna hvert öðru góðvild getur það haft jákvæð áhrif á allt samfélagið okkar hér í Versló.

Að lokum viljum við minna á að það eru ýmis úrræði sem hægt er að leita til ef þið upplifið vanlíðan. Auðvitað getur reynst vel að tala við þá sem standa okkur næst t.d. foreldra, systkini eða vini. Önnur úrræði eru hjálparsími Rauða Krossins 1717 og netspjallið á 1717.is (opið allan sólarhringinn), símaráðgjöf Heilsuveru (1700) og netspjallið heilsuvera.is (opið alla daga 8-22) og hægt er að bóka gjaldfrjáls ráðgjafaviðtöl hjá Berginu á bergid.is. Eins og áður sagði eruð þið einnig alltaf velkomin til okkar í Nemendaþjónustunni.

Aðrar fréttir