14.07.2024 Andlát Sölvi Eysteinsson, fyrrum enskukennari við Verzlunarskóla Íslands, lést þann 1. júlí síðastliðinn. Sölvi fæddist 4. júní 1925 og lauk stúdentsprófi frá Menntaskólanum á Akureyri árið 1948 og B.A og M.A prófi í ensku frá háskólanum í Manchester Englandi árið 1954. Sölvi hlaut einnig löggild réttindi sem skjalaþýðandi og dómtúlkur árið 1954. Sölvi var mikill skólamaður og átti farsælan rúman 40 ára kennsluferil við Verzlunarskólann, frá 1953 til 1994. Sölvi naut virðingar fyrir djúpstæða málakunnáttu og hafði hann jafnan það hlutverk að kenna stúdentsefnum máladeildar til stúdentsprófs. Hann var afar opinn fyrir nýjungum og var til að mynda fljótur að sjá tækifæri í þeirri tækni sem fylgdi tölvunum, var hann jafnan framsýnni sér mun yngri kennurum í þeim efnum. Sölvi lagði margt til skólastarfs og skólaþróunar, meðal annars nýtti hann breska fréttaskýringarþætti sem hann fékk senda reglulega á myndbandsspólum. Hann útbjó krefjandi námsefni þeim tengdum, með það að markmiði að nemendur fengju kennsluefni í hendur sem fjallaði, því sem næst, um málefni samtímans. Í þessu fólst mikil vinna en einnig mikil nýjung. Við minnumst Sölva með hlýhug og þakklæti fyrir störf hans fyrir skólann. Innilegar samúðarkveðjur sendum við Tómasi, Davíð og fjölskyldunni allri.