26.11.2024 CERN ferð: 26 nemendur úr 3-XY upplifa vísindi og menningu Fréttin er skrifuð af nemanda sem fór í ferðina. Ferðin var fullkomin lærdómssúpa sem bar keim af bæði menningu og vísindum. Heimsóknirnar í Cern, Deutches Museum og ETH vöktu mikinn áhuga á hinum ýmsu vísindagreinum. Einnig opnuðust augun okkar fyrir því hvernig þessar vísindagreinar geta komið sér að notum við rannsóknir og störf, og kviknaði enn frekari áhugi hjá mér fyrir því námsefni sem ég læri í skólanum sem tengist þessum vísindum. Svo var það auðvitað menningarlegi hlutinn. Við fengum að upplifa hina stórkostlegu menningu í Munchen og Genf. Við röltum um, kynntumst borgunum og heimamönnum í gegnum spjall í verslunum og á veitingastöðum. En uppáhaldið mitt var stórbrotna náttúran sem við urðum vitni að í lestarferðunum; stórfengnu Alparnir, grænu túnin og glimrandi vötnin blöstu við okkur hvert á eftir öðru. Eftir ferðina gæti ég alveg hugsað mér að flytja til annað hvort Þýskalands eða Sviss til þess að upplifa meiri af þessari menningu, náttúru, eða til þess að stunda þar nám. Ferðin var ótrúlega skemmtileg og frábært veganesti út í lífið! 26 nemendur úr 3-X og 3-Y fóru í nördaferð til München, Zürich og Genf, 13-17. nóvember. Í München skoðuðum við aðallega Deutsches Museum og KZ Gedenkstätte í Dachau og nokkrar kirkjur, sumir fóru líka í BMW-safnið. Í Zürich tók Björn Áki Jósteinsson, fyrrum Verzlingur á móti okkur. Hann tók master í eðlisfræði í ETH Zürich og vinnur núna við nanótækni í fyrirtæki sem er að búa til nýja týpu af smásjá. Hann sýndi okkur vinnuna sína og voru nemendur mjög áhugasamir. Eftir á skoðuðum við háskólann í miðbænum, þar sem Einstein var nemandi 1896-1900. Í CERN í Genf fengum við góða kynningu á öreindarhraðlinum, sem er stærsta vél í heimi. Hraðallinn er um 27 km langur og um 100 metra neðanjarðar við landamæri Sviss og Frakklands og þar er öreindum þeytt í afar sterku segulsviði í sérstökum göngum þar til þær nálgast ljóshraða. Tilgangurinn er að skapa þau skilyrði sem talið er hafi verið við Miklahvell fyrir 13,8 milljörðum ára og gera menn sér vonir um að öðlast dýpri skilning á myndun alheimsins, með gleggri sýn á innsta eðli efnisheimsins. Því miður fengum við ekki að fara niður í göngin þar sem mælingar voru í gangi en við fengum að sjá ýmis líkön. Það gafst líka tíma til að skoða gamla miðbæinn og rölta um Genfervatnið sem er eitt af stærstu vötnum Vesturevrópu. Við bakka Genfarvatns standa reisulegar byggingar sem hýsa fimm stjörnu hótel, frægar úrabúðir og fína veitingastaði. Þaðan er líka fallegt útsýni til fjalla en allir tindar sem sjást frá Genf, þar á meðal Mont Blanc, eru hinum megin við landamærin.