06.12.2024 „Ekki er allt sem sýnist“ – Kvikmyndahátíðin VOFF Nemendur í 3-B við Verzlunarskóla Íslands tóku nýlega þátt í þverfaglegu og skapandi þróunarverkefni. Ólík fög ljáðu kennslustundir sínar til nemenda og ákváðu kennarar að verkefnið skyldi snúast um stuttmyndagerð. Sú hugmynd óx og dafnaði og leiddi af sér heila kvikmyndahátíð, innblásin af RIFF (Reykjavík International Film Festival) sem hlaut að lokum nafngiftina VOFF (Verzló Official Film Festival). Nemendum úr 1-B og 2-B var svo boðið í Rauða sal að njóta töfra hvíta tjaldsins og skella sér svo í pizzaveislu í boði skólans að henni lokinni. Yngri nemendur hlógu dátt og klöppuðu hátt – enda myndir útskriftarárgangsins ekkert slor! Hver og einn hópur hafði frjáls efnistök en þurfti að fylgja ákveðinni yfirskrift og reyna að tengja hana með einum eða öðrum hætti við fögin sem tóku þátt í verkefninu; ritlist, heimspeki, listasaga, enska og lögfræði. Yfirskrift eða höfuðþema hátíðarinnar í ár var Ekki er allt sem sýnist og endurspegluðu allar myndirnar kjarna þeirrar hugsunar á ólíka vegu; framhjáhald, morð, svindl og annar skandall draup af hverju strái! Þegar allri yfirferð var lokið og einkunnir komnar í hús voru ákveðnar stuttmyndir verðlaunaðar og hlaut besta mynd ársins að mati kennara hinn eftirsótta VOFFa! VOFFinn verður svo farandbikar sem gengur milli bekkja ár frá ári enda Kvikmyndahátíðin VOFF aðeins rétt að hefja göngu sína – nú er líka búið að setja tóninn fyrir komandi kvikmyndir yngri árganga og spennandi að sjá hver afrakstur stuttmyndagerðar þeirra bekkja verður að ári liðnu á VOFF 2025!