21.01.2015 Evrópusamstarfsverkefnið Erasmus+: Young Voices in the European Democracies Dagana 12.-17. janúar var haldinn fyrsti vinnufundur af níu, á vegum Evrópusamstarfsverkefnisins Erasmus+ undir yfirskriftinni Young Voices in the European Democracies. Fundurinn fór fram í Verzlunarskóla Íslands en þátttökulönd verkefnisins eru Ísland, Tyrkland, Grikkland, Ítalía, Frakkland, Spánn, Rúmenía, Búlgaría og Þýskaland. Til landsins komu 19 kennarar og 24 nemendur. Vel fór um gestina, en erlendu nemendurnir gistu á íslenskum heimilum nemenda sem taka þátt í verkefninu og eru þeir nemendur allir á alþjóðarbraut. Viðvera erlendu gestanna var ánægjuleg og fór hópurinn í ýmsar skoðunarferðir saman. Eins og heiti verkefnisins gefur til kynna er markmið þess að vekja nemendur til umhugsunar um mikilvægi borgaravitundar og lýðræðis í nútímasamfélögum. Jafnframt á það að auka skilning nemenda á því hverjar skyldur þeirra og ábyrgð eru sem þegnar í lýðræðissamfélagi og mikilvægi þess að láta í sér heyra. Nemendur kynna sér sögu og þróun lýðræðis í Evrópu og heimsækja lýðræðisstofnanir í þátttökulöndunum, eins og þjóðþing. Eins velta nemendur fyrir sér merkingum hugtaka eins og jafnrétti, frelsi og samstöðu. Á fundinum fóru þátttakendur í hlutverkaleik í ímynduðu landi, þar sem nemendur völdu sér persónur með mismunandi hlutverk, stjórnmálaflokkar voru stofnaðir (Ungar raddir), útbúin var stefnuskrá og nokkrir fóru í framboð. Takmarkið var að nemendur myndu öðlast skilning á mikilvægi laga og reglna og þess að rökræða hlutina og að komast að niðurstöðu. Í hlutverkaleiknum störfuðu einnig fréttamenn sem sáu um að taka viðtöl við frambjóðendur en einnig tóku þeir upp framboðsfundi á upptökuvél. Fundurinn fór allur fram á ensku og stóðu okkar nemendur sig mjög vel.