Franskir nemendur heimsækja Verzlunarskólann

Dagana 8.–14. mars tóku 22 nemendur á 2. ári með frönsku sem þriðja mál á móti jafnöldrum sínum úr menntaskólanum Henri Bergson í borginni Angers í Loire-dalnum í Frakklandi.

Heimsóknin var liður í nemendaskiptaverkefni milli skólanna og kom í kjölfar heimsóknar íslenskra nemenda til Frakklands síðastliðið haust.

Frönsku gestirnir dvöldu hjá íslenskum fjölskyldum og fengu þannig tækifæri til að kynnast íslenskum siðum, venjum og daglegu lífi. Auk þess að sækja tíma í Verzlunarskólanum fór hópurinn í ýmsar fræðandi og skemmtilegar ferðir, meðal annars Gullna hringinn, í Hellisheiðarvirkjun, á Kjarvalstaði og í Perluna. Einnig var farið í skoðunarferð um Reykjanes og Hið íslenska reðasafn heimsótt.

Nemendurnir tóku þátt í fjölbreyttum verkefnum og leikjum með íslenskum jafnöldrum sínum og fengu að lokum boð á leiksýningu Nemendafélags Verzlunarskóla Íslands á Stjarnanna borg. Heimsóknin tókst afar vel og nutu frönsku ungmennin dvalarinnar.

Verkefnið var í umsjón Sigrúnar Höllu og Gerðar Hörpu.

Aðrar fréttir