02.10.2024 Frönsk menningarupplifun og skólaheimsókn Dagana 21. til 28. september fór 22 manna nemendahópur á öðru ári, ásamt tveimur kennurum, í ferð til borgarinnar Angers, sem staðsett er í Loire-dalnum í Frakklandi. Nemendahópurinn, sem allir eru með frönsku sem þriðja mál, dvöldu hjá frönskum fjölskyldum og fengu þar einstakt tækifæri til að kynnast frönskum siðum, venjum og daglegu lífi. Fjölskyldurnar tóku á móti þeim af einstakri gestrisni, sem við munum endurgjalda þegar frönsku ungmennin koma í heimsókn til Íslands í mars 2025. Auk þess að sitja í kennslustundum í franska menntaskólanum, heimsótti hópurinn meðal annars Château d’Angers, kastala frá 9. öld sem hefur að geyma veggteppi sem komust á heimsminjaskrá UNESCO árið 2023. Einnig var farið í „Bláu námuna“ (La Mine Bleue), þar sem áður var unnið flöguberg sem notað var í þök húsa. Eftir dvölina í Angers hélt hópurinn til Parísar, þar sem gist var á farfuglaheimili í 4. hverfi borgarinnar. Þar gengu nemendur um Mýrina (Le Marais), heimsóttu Sacré Cœur og röltu niður Montmartre-hæðina eftir að hafa skoðað Place du Tertre. Auk þess var farið að Sigurboganum, Louvre-safnið heimsótt og farið upp í Eiffelturninn. Ferðin var einstaklega vel heppnuð og var nemendum bæði fræðandi og lærdómsrík.