Heillandi upplifun listasögunema í Ítalíu

Dagana 19. til 26. október fóru 75 nemendur úr listasöguáfanga Verzlunarskólans í námsferð til Ítalíu, í fylgd með fjórum fararstjórum.

Ferðin hófst í Róm þar sem nemendur skoðuðu ýmsa þekkta menningar- og sögustaði eins og Páfahöllina, Sixtínsku kapelluna, Panþeonhofið, Jesúítakirkjuna, hringleikahúsið Colosseum og Galleria Borghese, þar sem til sýnis eru margar af glæsilegustu höggmyndum barokktímans. Hluti hópsins nýtti tækifærið til að fara á leik AS Roma og Inter Milan, þar sem ríkjandi meistarar frá Mílanó báru sigur úr býtum 1-0. Stemningin á Stadio Olimpico var samt sem áður óviðjafnanleg.

Næst lá leiðin til Flórens þar sem hópurinn heimsótti meðal annars Bargello og Uffizi-listasöfnin, sem hýsa fjölda af frægustu verkum endurreisnarinnar, auk Galleria Accademia, þar sem hin heimsþekkta Davíðsstytta Michelangelos stendur. Einnig fór stór hluti hópsins upp í hvelfingu dómkirkju borgarinnar sem er eitt helsta byggingarfræðilega undur sögunnar.

Ferðinni lauk með stuttu stoppi í Mílanó þar sem hópurinn heimsótti hina stórfenglegu gotnesku dómkirkju, Duomo, og hina sérstöku Beinakirkju, Santa Maria delle Ossa.

Fararstjórarnir voru afar ánægðir með frammistöðu nemenda í ferðinni en sjaldan hefur verið farið með áhugasamari og skemmtilegri hóp í þessa ferð Það sem meðal annars gerir ferð sem þessa svo skemmtilega er að nemendur höfðu áður í áfanganum lært um flest af því sem skoðað var í ferðinni. En eins og orðatiltækið segir þá er sjón sögu ríkari!

Aðrar fréttir