
Hópur nemenda í Færeyjum
Í síðustu viku dvaldi hópur nemenda á fyrsta ári í Færeyjum og tók þátt í sameiginlegu NordPlus-verkefni Verzlunarskólans, Menntaskólans í Kambsdal og Tietgen-verslunarskólans í Óðinsvéum.
Þema verkefnisins er félagsleg sjálfbærni.
Nemendurnir dvöldu á heimilum færeyskra menntaskólanema, sem búsettir eru vítt og breitt um Austurey og á nálægum eyjum. Dagskrá færeysku gestgjafanna var metnaðarfull og fjölbreytt. Meðal annars fengu nemendur kennslu í róðri – þjóðaríþrótt Færeyinga og fóru í sýnisför í verksmiðjur Bakkafrosts, stærsta vinnuveitanda eyjanna. Hópurinn heimsóttu einnig Norrænu ferjuna Smyril line, sem var á leið til Íslands síðar sama dag og fór í dagsferð til Þórshafnar þar sem meðal annars var komið við í Dómkirkjunni og á Lögtingi Færeyja.
Þetta skemmtilega og lærdómsríka verkefni er rétt að hefjast, en í upphafi haustmisseris fer íslenski hópurinn til Óðinsvéa ásamt færeysku þátttakendunum. Að lokum munu dönsku og færeysku nemendurnir heimsækja Ísland í janúar á næsta ári.
Nemendur Verzlunarskólans stóðu sig afar vel, voru skólanum til mikils sóma og nutu samverunnar með dönskum og færeyskum félögum. Með í för voru kennararnir Katrín Jónsdóttir (dönsku- og lífsleiknikennari) og Rasmus Christiansen (dönskukennari).