Íslenskan er lykillinn – Ewa Lizewska Beczkowska rannsakar stöðu erlendra starfsmanna

Laust fyrir jól brautskráðist Ewa Lizewska Beczkowska úr fagnámi verslunar og þjónustu við Verzlunarskóla Íslands.

Námið er ætlað starfsfólki verslunarfyrirtækja sem vill auka þekkingu sína í starfi en einkum er lögð áhersla á greinar sem hafa hagnýtt gildi í verslun og viðskiptum.

Ewa er íslenskur ríkisborgari, ættuð frá Póllandi og starfar sem aðstoðarverslunarstjóri í Nettó í Nóatúni. Í lokaverkefni sínu, unnið undir handleiðslu Björns Jóns Bragasonar lögfræðikennara, rannsakaði hún lagalega stöðu erlendra starfsmanna og samskipti á sínum vinnustað.

Í rannsókn sinni komst hún að því að skortur á íslenskukunnáttu skapar áskoranir í samskiptum á vinnustöðum. Þrátt fyrir ánægju stjórnenda með störf erlenda starfsmenn, finna margir starfsmannanna fyrir félagslegri einangrun og telja sig ekki vera hluta af íslensku samfélagi.

Ewa leggur áherslu á mikilvægi íslenskunnar fyrir aðlögun innflytjenda og telur að skýrar kröfur um íslenskukunnáttu gætu bætt stöðu þeirra í samfélaginu. Hún telur einnig að enskan geti ekki komið í stað íslenskunnar, sérstaklega í þjónustustörfum þar sem sérhæfður orðaforði skiptir máli. Í útleggingum sínum segir hún svo frá eigin reynslu:

Sjálf kunni ég ekki ensku þegar ég kom hingað og hef lært talsvert í ensku hér en umfram allt langaði mig að verða fullgildur þátttakandi í íslensku samfélagi og vissi sem var að það gæti ekki gerst nema ég næði tökum á tungumálinu. Ég vildi líka sýna Íslandi og Íslendingum þá virðingu að leggja mig eftir því að læra tungumálið. Við getum snúið dæminu við: ekki myndi ég kæra mig um að fara í verslun eða veitingahús í Póllandi og fá bara þjónustu á ensku, já eða lélegri ensku eins og oft er raunin hér.

Með rannsókn sinni vonast Ewa til að stuðla að umræðu um hvernig fólk af ólíkum uppruna getur unnið saman og tekið virkan þátt í samfélaginu, þar sem hún telur íslenskukunnáttuna vera lykilatriði.

Nánar má lesa um rannsókn Ewu á síðu Samkaupa

Aðrar fréttir