13.09.2024 Kennsla fellur niður eftir hádegi í dag Kennsla fellur niður eftir hádegi í dag, vegna útfarar Bryndísar Klöru. Útför Bryndísar Klöru fer fram í dag, 13. september, klukkan 15:00 frá Hallgrímskirkju. Hér að neðan má lesa minningargrein frá skólastjórum Verzlunarskólans sem birtist í Morgunblaðinu. Kveðja frá Verzlunarskóla Íslands Það er þyngra en tárum taki að setja á blað minningarorð um nemanda í blóma lífsins. En blákaldur veruleikinn er stundum illskiljanlegur og við erum öll harmi slegin. Sorg hefur ríkt í nemendasamfélagi skólans vegna sviplegs fráfalls Bryndísar Klöru en nemendur og starfsfólk hafa sýnt einstakan samhug og samstöðu við að heiðra minningu hennar. Við minnumst með þakklæti tímans sem Bryndís Klara var nemandi okkar og hluti af nemendasamfélagi Verzlunarskólans. Bryndís Klara var glaðlynd og klár stúlka í yndislegum bekk. Hún var sjálfstæð og vel undir það búin að taka út mikinn þroska, bæði sem námsmaður og persóna. Þótt kveðjustundin sé komin og Bryndís Klara ekki lengur á göngum skólans með skólafélögum sínum þá mun minning hennar lifa með okkur öllum. Harmleikurinn sem leiddi til þess að Bryndís Klara lét lífið verður vonandi til þess að við tökum höndum saman og breytum samfélagi okkar til hins betra með kærleikann að vopni. Við viljum lifa í samfélagi þar sem börnin okkar eru örugg og unga kynslóðin vill að samfélagið sem þau munu fæða börn sín í verði þeim öruggt. Fyrir hönd starfsmanna og nemenda Verzlunarskólans sendum við fjölskyldu Bryndísar Klöru og vinum hennar okkar innilegustu samúðarkveðjur. Bryndís Klara var og verður alltaf ein af okkur. Guðrún Inga Sívertsen og Þorkell H. Diego Skólastjórar Verzlunarskóla Íslands