08.11.2024 Listó kynnir: Villibráð Listafélag Verzlunarskóla Íslands setur árlega upp sýningu í hátíðarsal skólans og eru það nemendur skólans sem að sjá um allt sem viðkemur sýningunni eins og sviðsmynd, förðun, leikskrá og svo margt fleira. Síðustu mánuði hefur Listafélagið unnið hörðum höndum við að setja upp leikritið “Villibráð” og nú er loks kominn tími til að sýna almenningi afraksturinn. Sýningin fjallar um sjö manna vinahóp sem hittist í fyrirpartýi áður en haldið er á stúdentafögnuð Verzlunarskóla Íslands. Þau ákveða að prófa spennandi samkvæmisleik, þar sem öll skilaboð, símtöl og myndir sem berast í síma þeirra eru opinberuð fyrir hópnum. Þetta leiðir til óvæntra, bráðfyndinna og spennandi uppákoma sem reyna á samböndin og heiðarleika hópsins. Eftirtektarvert er að sjö símaraddir koma fram í leikritinu, og eru þær upprunalegar raddir úr kvikmyndinni sem leikritið byggir á. Foreldrar og aðrir forsjáraðilar eru hvattir til að mæta á sýninguna og taka aðra fjölskyldumeðlimi með, enda er sýningin góður vitnisburður um þróttmikið og heilbrigt félagslíf skólans. Miðabókanir má nálgast hér.