21.03.2022 Menntabúðir VÍ og MH Sameiginlegar menntabúðir starfsmanna Verzlunarskólans og MH voru haldnar föstudaginn 18. mars. Hugmyndin var að deila reynslu og skiptast á skoðunum meðal kennara og stoðdeilda. Almennt var gerður mjög góður rómur að samstarfinu enda stendur á næstunni til að vinna enn frekar úr þeim hugmyndum sem komu fram. Dagurinn hófst á málstofum faghópa í Versló. Stórar og litlar deildir hittust og fóru yfir málin, minnsti hópur var þriggja manna og fjölmennustu hópar fóru yfir tuttugu manns. Svo góður skriður komst á umræður að mörgum þótti erfitt að hætta og rölta yfir í MH þar sem starfsmenn kynntu sín hugðarefni í básum sem dreift var um hátíðarsal skólans. Þar var fjölbreytnin svo sannarlega í fyrirrúmi. Sem dæmi má nefna að tveir kynntu áfanga sem helgaður er Harry Potter bókunum, aðrir kynntu möguleika tölvuforrita í kennslu og svo var hægt að fræðast um alþjóðlegt IP-nám MH á ensku og norræna NGK-bekkinn sem Versló kennir í samstarfi við skóla í Danmörku, Færeyjum og Grænlandi. Að umræðum og fræðslu lokinni var tekið upp léttara hjal í Miðgarði MH þar sem boðið var upp á léttar veitingar.