10.10.2024 Minningartónleikar fyrir Bryndísi Klöru Góðgerðarráð Verzlunarskóla Íslands stóð fyrir minningartónleikum í Háskólabíói fimmtudaginn 3. október til heiðurs vinkonu sinni og samnemanda Bryndísi Klöru Birgisdóttur. Miðarnir á tónleikana seldust upp og var salurinn fullur af fólki sem kom saman til að minnast hennar á fallegan hátt. Allur ágóði tónleikanna rann í minningarsjóð Bryndísar Klöru. Á sviðinu komu fram stórstjörnur íslenskrar tónlistar, þar á meðal Aron Can, Bubbi Morthens, Friðrik Dór, GDRN og Páll Óskar, Ragnhildur Steinunn var kynnir kvöldsins og stýrði dagskránni af hlýju. Öll gáfu þau vinnu sína í þágu góðs málefnis. Tónleikarnir voru einstök upplifun fyrir alla viðstadda, þar sem ólíkir tónlistarmenn sameinuðust í að flytja hugljúf lög til minningar um unga stúlku sem hafði djúp áhrif á vini sína og skólafélaga. Á tónleikunum voru einnig seldir bleikir bolir og pokar með áprentuðum bleikum rósum, en allur ágóði af þeirri sölu rann einnig í minningarsjóðinn. Eftirspurnin eftir bolunum og pokunum reyndist meiri en gert var ráð fyrir, en á næstu dögum gefst tækifæri fyrir þá sem misstu af að tryggja sér eintak af þessum fallegu vörum. Góðgerðarráð Verzlunarskóla Íslands er skipað, Ingu Lilju Ómarsdóttur, Ingunni Böðvarsdóttur, Sunnu Hauksdóttur, Kristjönu Mist Logadóttur, Anítu Líf Ólafsdóttur, Tinnu Karen Sigurðardóttur, Sölku Elínu Sæþórsdóttur, Helgu Hrund Ólafsdóttur, Birtu Maríu Aðalsteinsdóttur, Kristínu Sölku Auðunsdóttur og Evu Björk Angarita.