03.11.2023 Nemendaferð til Washington DC Þann 20. október fór hópur nemenda í stjórnmálafræði í námsferð til höfuðborgar Bandaríkjanna, Washington DC. Þeir hafa að undanförnu verið að læra um stjórnmál vestanhafs og ferðin því hugsuð til að dýpka þekkingu og skilning á því umfjöllunarefni. Washington skartaði sínu fegursta við komu okkar, sól skein í heiði alla dagana og hitastig um og yfir 20 gráður var kærkomin tilbreyting fyrir mörlandana eftir svala íslenska haustsins. Dagskrá vikunnar var nokkuð þétt en nemendur fóru m.a. í skoðunarferð um þinghúsið og í heimsókn á þjóðskjalasafnið, hvar þeir virtu fyrir sér hin upprunalegu eintök af frelsisyfirlýsingu Bandaríkjanna og stjórnarskránni. Einnig voru tvö Smithsonian söfn heimsótt, annars vegar sögusafnið og hins vegar safn um sögu og menningu blökkumanna. Þá voru öll helstu minnismerki borgarinnar skoðuð í löngum göngutúr í brakandi haustblíðunni. Að endingu vottaði hópurinn föllnum hermönnum, geimförum, forsetum og hæstaréttardómurum virðingu með heimsókn í þjóðargrafreitinn í Arlington á lokadegi ferðarinnar. Auk lærdómsríkra skoðunarferða var einnig ýmislegt til gamans gert. Stór hópur nemenda kynnti sér bandarískt íþróttalíf með ferðum á leiki í amerískum fótbolta og íshokkí auk þess sem margir gerðu sér glaðan dag í dýragarðinum, brunuðu um gokartbrautir eða skelltu sér í rússíbana í skemmtigarði í frítímanum. Það var því þreyttur en alsæll hópur sem sneri aftur til Íslands á ókristlegum tíma, löngu fyrir rismál, aðfaranótt 26. október, fróðari og reynslunni ríkari.