29.10.2024 Nemendur kanna töfraheim Harry Potters í London Fimmtíu kátir Verzlunarskólanemendur á þriðja ári ferðuðust til London dagana 20.–23. október í fylgd fjögurra kennara. Ferðin bauð upp á einstakt tækifæri til að kanna ævintýralegan heim Harry Potters. Nemendurnir gistu miðsvæðis á gistiheimilinu Generator og hófu strax á sunnudeginum þátttöku í ratleik þar sem þeir skoðuðu helstu kennileiti borgarinnar og söfnuðu saman nýrri þekkingu og skemmtilegum minningum. Á mánudeginum hófst dagskráin með heimsókn á British Museum, þar sem nemendur fengu innsýn í helstu skeið mannkynssögunnar. Síðar um daginn héldu þeir í gönguferð á slóðir Harry Potter-kvikmyndanna með sérþjálfuðum leiðsögumönnum þar sem margt skemmtilegt kom í ljós og sýndi sig að sumir nemendanna eru fróðari um þau mál en aðrir. Þriðjudagurinn var hápunktur ferðarinnar, þegar nemendur heimsóttu Warner Brother Studios. Þar upplifðu þeir heillandi sýningu þar sem kvikmyndaverum Harry Potter hefur verið breytt í safn sem býður upp á einstaka innsýn í kvikmyndaheiminn, sem aðdáendur Harry Potter nutu til fulls. Heimsókn þangað er bæði ótrúleg upplifun fyrir þá sem þekkja bækurnar og myndirnar, en gefur líka ótrúlega flotta innsýn í þá miklu vinnu og listfengi sem fer í framleiðslu á kvikmyndum á borð við Harry Potter myndirnar. Lokadaginn heimsóttu nemendur University College London, einn af þekktustu háskólum Englands, þar fengu nemendur að sjá og upplifa andrúmsloftið í menntasetri í heimsklassa – og að sjá uppstoppaðan heimspeking í glerkassa. Utan formlegrar dagskrár náði stór hluti nemenda að nýta sér fjölbreytta flóru sýninga og leikhúsa í Lundúnum, en stór hópur fór á Abba sýninguna og söngleikinn Wicked. Þetta var frábær ferð þar sem allir stóðu sig með mikilli prýði og ferðin dýpkar og gerir efni áfangans um Harry Potter meira lifandi og áhugavert.