Nemendur Verzlunarskólans læra um sjálfbæra þróun í hjarta Vínarborgar

Dagana 30. september til 5. október fóru fimm nemendur á 2. ári viðskiptabrautar ásamt tveimur starfsmönnum í námsferð til Vínarborgar.

Nemendurnir dvöldu á heimilum jafnaldra sinna í Vín og fengu einstakt tækifæri til að upplifa daglegt líf og menningu þeirra.

Námsferðin var hluti af Erasmus+ samstarfsverkefni milli Íslands, Spánar, Frakklands og Vínar. Meginmarkmið verkefnisins er að fræða nemendur um heimsmarkmið Sameinuðu þjóðanna um sjálfbæra þróun og hvetja þá til að tengja þessi markmið við sitt eigið daglega líf.

Nemendurnir fylgdu þéttri og fjölbreyttri dagskrá sem skipulögð var af skólanum í Vín. Á dagskránni voru m.a. heimsóknir í stofnanir og fyrirtæki sem leggja sérstaka áherslu á sjálfbærni. Heimsókn í sorpbrennslustöð vakti athygli en þar fengu nemendur að sjá hvernig orka frá brennslu úrgangs er nýtt til að hita heimili borgarbúa.

Ferðin var afar vel heppnuð og gaf nemendum dýrmæta innsýn í það hvernig sjálfbær þróun getur haft áhrif á samfélag.

Aðrar fréttir