23.09.2022 Nemendurá 1. ári taka þátt í rannsókn á áhrifum ljóss á dægursveiflur og svefn Verzlunarskólinn er samstarfsaðili rannsókn á áhrifum ljóss á dægursveiflur og svefn ungmenna. Markmið þessarar rannsóknar er að skoða hvort mismunandi lýsing í skólastofum hafi áhrif á svefn, dægursveiflur, hugræna virkni og líðan ungmenna. Rannsóknir hafa sýnt að svefnvandi er algengt vandamál meðal ungmenna sem getur haft margvíslegar líffræðilegar, tilfinningalegar, hugrænar og sálrænar afleiðingar í för með sér. Ein möguleg ástæða svefnvanda er talin vera truflun í dægursveiflum líkamans. Vitað er að birta er helsti samhæfingarþáttur dægursveiflna og því viljum við rannsaka hvort ljós í skólastofum geti bætt svefn, aukið einbeitingu, bætt frammistöðu í námi og aukið almenna vellíðan á meðal ungmenna. Að breyta lýsingu í skólastofum til að bæta svefn meðal ungmenna á þessum aldri hefur ekki verið prófað fyrr. Þessi rannsókn er því mikilvægur liður í að bæta vísindalega þekkingu um slíkt. Ef niðurstöður rannsóknarinnar verða jákvæðar, verður með tiltölulega auðveldum hætti hægt að bæta lýsingu í skólastofum og þar með auka svefngæði og bæta líðan nemenda. Ábyrgðaraðili rannsóknarinnar er dr. Birna Baldursdóttir, lektor við Háskólann í Reykjavík.