25.07.2024 Netaprent Netaprent frá Verzlunarskóla Íslands sem stóð uppi sem sigurvegari í frumkvöðlakeppni Ungra frumkvöðla, JA Iceland á vormánuðum keppti fyrir hönd Íslands í evrópukeppni JA Europe sem kallast GEN-E. Keppnin fór fram á Sikiley þann 2-4. júlí sl., þar voru mætt frumkvöðlafyrirtæki frá 41 landi sem kepptu um bestu lausnirnar. Liðin sem kepptu voru meðal tæplega 400.000 nemenda sem höfðu stofnað fyrirtæki skólaárið 2023-24 og keppt í svæðis-, lands- og netkeppni og höfðu unnið sér inn réttindi til að vera fulltrúi lands síns í Gen-E. Að Netaprenti standa Andri Clausen, Erik Gerritsen, Markús Ingason og Róbert Luu, Netaprent vinnur að því að endurnýta afgangs fiskinet í þrívíddarprentefni sem hægt er að nota í þrívíddarprentara. Á meðan á keppninni stóð þá kynnti Netaprent fyrirtækið og starfsemi fyrirtækisins ásamt því að setja upp bás á vörumessu og fara í viðtöl hjá dómurum keppninnar. Strákarnir stóðu sig mjóg vel og voru landi og þjóð til sóma. Netaprent hefur unnið í nánu samstarfi með Tæknisetrinu í vetur og hefur Sjávarklasinn boðið þeim pláss í sumar en þar munu þeir halda áfram þróa vöruna sína.