
Norður-Atlantshafsbekkurinn – Þitt næsta ævintýri?
Frá árinu 2019 hefur Verzlunarskólinn boðið nemendum sem eru að ljúka grunnskóla upp á einstakt nám í samvinnu við þrjá aðra erlenda framhaldsskóla: Gribskov Gymnasium í Danmörku, GUX Sisimiut á Grænlandi og Miðnám á Kambsdali í Færeyjum.
Þetta er í sjöunda skiptið sem bekkur er myndaður á þessari spennandi námsbraut, sem byggir á hefðbundinni danskri náttúrufræðibraut með sérstakri áherslu á norðurskautstækni. Kennslan fer fram á dönsku.
Nemendur frá þessum fjórum löndum sækja um í lok febrúar og út frá umsóknum er myndaður blandaður bekkur með nemendum frá öllum fjórum löndunum.
Námið í Norður-Atlantshafsbekknum (NGK) er þrjú ár:
- Fyrsta árið: Nemendur dvelja í Danmörku og stunda nám í Gribskov Gymnasium, í Kaupmannahöfn.
- Annað árið: Fyrri önnin fer fram í Færeyjum í Miðnámi á Kambsdali og seinni önnin í Verzlunarskóla Íslands.
- Þriðja árið: Nemendur ljúka náminu á Grænlandi í GUX Sisimiut.
Nánari upplýsingar um NGK má finna hér: Norður-Atlantshafsbekkurinn (NGK)
Umsóknarferli: Íslenskir nemendur senda umsókn á verslo@verslo.is og post@gribskovgymnasium.dk ásamt rökstuddri umsögn um sjálfa sig. Umsóknin skal vera á dönsku.
Nemendur sem búa í Danmörku senda umsókn í gegnum optagelse.dk ásamt umsögn um sig.
Athugið: Umsóknarfrestur er til 1. mars.