06.12.2024 Nýtt samstarf Verzlunarskólans og Pennington School í New Jersey Verzlunarskóli Íslands hefur hafið samstarf við Pennington School í New Jersey. Pennington er einkaskóli sem býður upp á mjög góðar aðstæður fyrir nemendur, bæði í námi og íþróttum og er skólinn mjög framarlega í fótbolta, þ.e.a.s. eins og við spilum hann! Fyrstu fulltrúar Verzlunarskólans í þessu spennandi samstarfi eru þær Krista Ýr Siggeirsdóttir og Sara Lind Aðalsteinsdóttir í 2-R, en þær tóku á móti Zoya Chatha Mehra sem var í skiptinámi í 10 daga í nóvember síðastliðnum. Í mars munu þær heimsækja Pennington School og fá innsýn í skólastarfið þar. Fyrri hluti skiptinámsins gekk afar vel og það verður spennandi að heyra af upplifun þeirra Kristu Ýr og Söru Lind í Bandaríkjunum. Chad Bridges, fulltrúi skólastjórnar Pennington, heimsótti Verzlunarskólann við lok dvalar Zoyu. Hann kynnti sér starfsemi skólans og ræddi framtíðarfyrirkomulag samstarfsins en áætluð eru skipti með nemendahópa, kynnisferðir kennara og önnur áhugaverð verkefni. Nemendur eru hvattir til að fylgjast með tölvupósti vegna auglýsinga um þátttöku í þessu verkefni. Tengslin milli skólanna urðu til með aðstoð Brynjars Benediktssonar, sem rekur Soccer & Education USA. Fyrirtækið aðstoðar íslenska nemendur við að komast í bandaríska háskóla á fótboltastyrk. Einnig hefur Brynjar byggt upp tengslanet við bandaríska menntaskóla sem hafa áhuga á að vinna með íslenskum skólum. Verzlunarskólinn er Brynjari afar þakklátur fyrir að koma okkur í samband. Samstarfið er spennandi viðbót við blómlegt og lifandi alþjóðastarf skólans og opnar dyr fyrir nemendur Verzlunarskólans á alþjóðavettvangi og eykur fjölbreytni í alþjóðastarfi skólans.