16.10.2023 Ræðunámskeið Kostir og gallar gervigreindar, kynjastaðalmyndir, skortur á jafnrétti, ógnin gegn íslenska laxinum, áskoranir í heilbrigðiskerfinu og þörfin fyrir fjármálafræðslu voru nokkur af þeim viðfangsefnum sem níu nemendur úr fjórum framhaldsskólum fjölluðu um fyrir fullum sal áhorfenda í Versló fimmtudaginn 12. október. Nemendurnir voru þátttakendur í verkefninu Nordröst, talerskolen í Nordatlanten – Raddir norðursins – ræðuskóli Norðuratlandshafsins. Nemendurnir komu frá Borgarholtsskóla, Kvennaskólanum, Fjölbrautaskóla Mosfellsbæjar og Verzlunarskóla Íslands. Kennarar á námskeiðinu voru Pia Beltoft og Martin Fehr Thekildsen frá Røst stofnuninni, þau eru frá Danmörku og bæði kennarar í ræðumennsku með mikla reynslu. Undanfarin ár hafa þau unnið með Anette Molbech frá Höfundaskóla á ferðinni (Den Rejsende Forfatterskole) um að þróa Nordrøst, ræðuskóla Norðuratlanshafsins, en Anette stýrði námskeiðinu hér í Versló. Tengiliður og samstarfsaðili hennar í Versló var Ármann Halldórsson, umsjónarmaður alþjóðaverkefna. Fjöllistakonan Steiney Skúladóttir, meðal annars þekkt fyrir að rappa með Reykjavíkurdætrum og margskonar grínstarfsemi stýrði viðburðinum og kynnti ræðurnar, auk þess sem hún hitti hópinn og kynnti þeim fyrir fjölbreyttum aðferðum til að tjá hugsanir sínar og tilfinningar. Þátttakendur voru hæst ánægðir og aldrei að vita á hvaða stærri sviðum við eigum eftir að sjá þau í framtíðinni!