26.02.2020 Skólaþing – Samskiptasáttmáli Versló Þriðjudaginn 25. febrúar síðastliðinn var haldið Skólaþing með yfirskriftinni Samskiptasáttmáli Versló. Tilgangur sáttmálans er annars vegar að gera góðan skóla betri og hins vegar að skapa umhverfi þar sem nemendum og starfsfólki líður vel saman. Þátttakendur á skólaþinginu voru valdir með slembiúrtaki, tveir úr hverjum bekk auk 30 starfsmanna. Alls voru þátttakendur á þinginu 103. Á þinginu var unnið með fjögur þemu, þ.e. viðmót, tengsl, umgengni og heilbrigði en í janúar á þessu ári voru allir nemendur og starfsfólk skólans beðin um að skila inn miðum með einni jákvæðri upplifun og einni neikvæðri upplifun. Alls var 737 miðum skilað inn en út frá þeim voru upplifanir teknar saman og flokkaðar í þema sem unnið var svo með á þinginu Raðað var á 6-8 manna borð og fékk hvert borð ákveðið þema til að vinna með út frá þeim upplifunum sem flokkuðust undir þemað. Hvert borð fékk það hlutverk að setja niður leikreglur eða setningar sem byrjuðu á “ við ætlum alltaf að …” og “við ætlum aldrei að…”. Þessar setningar verða svo notaðar til að móta samskiptasáttmála skólans. Skólaþingið tókst einstaklega vel þar sem allir unnu að sama markmiði að gera góðan skóla enn betri.