Stjórnmálafræðinemar í Washington DC

Þann 19. október hélt hópur nemenda í stjórnmálafræði í námsferð til höfuðborgar Bandaríkjanna, Washington DC.

Nemendur hafa að undanförnu verið að læra um stjórnmál vestanhafs, og var ferðin sérstaklega hugsuð til að dýpka þekkingu þeirra og skilning á þessu viðfangsefni. Forsetakosningar voru í nánd og vakti það mikinn áhuga hjá nemendum.

Borgin tók á móti hópnum með blíðskaparveðri, sól skein dag hvern og hitinn fór í rúmar 20 gráður, sem var kærkomin tilbreyting frá íslenska haustinu. Margir nýttu tækifærið til að fá sér góðan skammt af D-vítamíni áður en veturinn gengur í garð.

Dagskrá vikunnar var fjölbreytt og þéttskipuð. Nemendur fóru í skoðunarferð um þinghúsið og í heimsókn á þjóðskjalasafnið, þar sem þeir skoðuðu frumrit frelsisyfirlýsingarinnar og stjórnarskrárinnar. Í ferðinni voru einnig tvö Smithsonian söfn heimsótt, annars vegar sögusafnið og hins vegar safn um sögu og menningu blökkumanna. Þá voru öll helstu minnismerki borgarinnar skoðuð í löngum göngutúr í brakandi haustblíðunni.

Heimsókn í sendiherrabústað Íslands var einn af hápunktum ferðarinnar. Þar tók nýskipaður sendiherra, Svanhildur Hólm Valsdóttir, ásamt eiginmanni sínum Loga Bergmanni Eiðssyni, á móti hópnum. Þau fræddu nemendur um starfsemi utanríkisþjónustunnar og fóru vel yfir samskipti Íslands og Bandaríkjanna.

Ferðinni lauk með heimsókn í þjóðargrafreitinn í Arlington, þar sem hópurinn vottaði virðingu föllnum hermönnum, geimförum, forsetum og hæstaréttardómurum.

Á milli formlegra heimsókna gafst tími til að njóta borgarlífsins. Sumir brugðu sér á íþróttakappleiki, aðrir spiluðu golf og nokkrir nýttu frítímann til að heimsækja pöndurnar í dýragarðinum.

Aðfaranótt 25. október snéri hópurinn aftur til Íslands, þreyttur en alsæll. Nemendur komu heim reynslunni ríkari og með dýpri skilning á bandarískum stjórnmálum og menningu.

Aðrar fréttir