15.10.2024 Tékkneskir nemendur heilluðust af Íslandi Hópur nemenda frá Hello framhaldsskólanum í Ostrava, Tékklandi, dvaldi hjá nemendum í 2-A vikuna 6.-13. október. Þrír kennarar fylgdu hópnum, og var heimsóknin hluti af Erasmus+ samstarfsverkefni milli skólanna. Nemendurnir heimsóttu Alþingi, Bergið-headspace og Háskólann í Reykjavík. Þeir sóttu einnig fyrirlestra í Verzlunarskólanum og unnu verkefni sem tengdist stafrænni vellíðan (digital wellbeing). Tékknesku nemendurnir fengu að upplifa ýmsar íslenskar náttúruperlur, þar á meðal Gullna hringinn, og var hópurinn sérstaklega ánægður með þá ferð. Íslensku nemendurnir voru duglegir að hafa ofan af fyrir gestunum sínum, meðal annars með sundferðum, keilu, norðurljósaskoðun, og þátttöku í viðburðum á VÍ-MR vikunni. Ferðin náði hápunkti með landsleik Íslands og Wales á Laugardalsvelli, sem vakti mikla ánægju meðal gesta. Tékkneski hópurinn var himinlifandi með ferðina og verður heimsóknin endurgoldin í mars þegar 2-A heldur til Ostrava.