Tilkynning frá skólastjóra

Kæru nemendur.

Í dag hefst páskaleyfi eftir þriggja vikna skólahald þar sem skólinn hefur verið lokaður og nemendur og kennarar haft sína starfsstöð heima. Eftir því sem við best vitum hefur það gengið vel þessar síðustu vikur og eiga bæði kennarar og nemendur hrós skilið fyrir hversu vel hefur tekist að umbreyta náms- og kennsluaðferðum á mjög skömmum tíma.

Nú liggur fyrir að samkomubann mun vara til a.m.k. 4. maí sem þýðir að skólinn verður áfram lokaður. Kennsla mun því hefjast aftur eftir páskafrí í rafrænum heimi þann 15. apríl. Öll okkar plön lúta að því að kennslu ljúki 30. apríl. Til þess að auðvelda ykkur að skipuleggja annarlokin munu kennarar setja inn upplýsingar um yfirferð námsefnis, verkefnaskil og próf sem lögð verður fyrir eftir páska.

Samkvæmt sóttvarnarlækni mun samkomubanni verða aflétt í áföngum og fyrirsjáanlegt að framhaldsskólar verði síðastir til þess að opna aftur. Af þeim sökum hefur verið tekin ákvörðun um að lokapróf fari fram sem heimapróf. Prófdagar munu halda sér en tímasetningar einstakra prófa gætu breyst. Útfærsla á prófum í hverjum áfanga er í höndum fagstjóra og kennara. Fyrirkomulag prófs getur til dæmis verið munnlegt, rafrænt í INNU eða skriflegt. Nemendur sem taka rafræn heimapróf geta átt von á því að kennarar hafi samband og prófi munnlega úr einstökum þáttum prófsins. Nánari útfærslur verða tilkynntar eftir páska.

Vegna þessara breytinga má búast við að námsmat einstakra áfanga geti tekið breytingum og hafa kennarar heimild til að hnika til vægi einstakra einkunnaþátta. Einnig mun námsmat í einhverjum áföngum færast yfir í símat og mun þá lokapróf falla niður. Allar upplýsingar um breytingar á námsmati koma frá kennurum.

Páskaleyfi er kærkomið frí en þeir nemendur sem hafa dregist aftur úr eða eiga eftir að ljúka verkefnum í einstökum áföngum eru hvattir til að nýta tímann vel.

Skólinn sendir bestu páskakveðjur til ykkar allra og fjölskyldna ykkar. Farið vel með ykkur og fylgið leiðbeiningum Almannavarna í einu og öllu.

Kveðja,
Ingi Ólafsson
skólastjóri

Aðrar fréttir