Vel heppnuð góðgerðarvika í Verzló

Góðgerðarvika Verzlunarskólans 2025 fór fram með glæsilegum hætti og skilaði samtals 1.204.937 krónum, sem renna til Minningarsjóðs Bryndísar Klöru.

Heildarsöfnunin til sjóðsins hefur hins vegar náð 8.740.937 krónum, en sú upphæð safnaðist meðal annars með öðrum viðburðum, svo sem minningartónleikum sem haldnir voru á síðastliðnu ári.

Vikan einkenndist af fjölbreyttum viðburðum og áskorunum þar sem nemendur og kennarar tóku virkan þátt í söfnuninni. Meðal helstu áskorana voru:

  • Ferð í kringum landið – Fjórir nemendur á þriðja ári fóru hringinn í kringum Ísland.
  • Hundabúrið – Nemandi eyddi heilum skóladegi í hundabúri.
  • Söngur í MR – Tveir nemendur heimsóttu Menntaskólann í Reykjavík og tóku lagið fyrir nemendur þar.
  • Cringe-keppni – Kennarar tóku þátt í skemmtilegri keppni sem vakti mikla athygli.
  • Fótboltaleikur á Marmaranum – Frægt fólk mætti og keppti á móti Skemmtó.

Í fótboltaleiknum tóku meðal annars þátt Gummi Ben, Króli, Júlí Heiðar, Þórdís Björk, Sandra Barilli, Patrekur Jamie og Gói Sportrönd. Með stuðningi frá Víking fékk skólinn lánuð stór mörk fyrir leikinn og í hálfleik voru seldar pizzur frá Domino’s til að auka söfnunarféð enn frekar.

Auk þess sá nefndin um að selja bakkelsi, nammi, krap og mat í öllum pásum vikunnar til að styðja við söfnunina.

Skipuleggjendur vilja færa nemendum, kennurum, styrktaraðilum og öllum sem tóku þátt í þessari vel heppnuðu viku innilegar þakkir.

Aðrar fréttir