04.03.2015 Vel heppnuð skíðaferð Helgina 27. feb.-1. mars fóru rúmlega 70 nemendur Verzlunarskólans í skíðaferð til Akureyrar á vegum íþróttafélagsins. Nemendur fengu ljómandi gott skíðaveður alla helgina og skemmtu þeir sér vel í brekkunum enda færið frábært. Margir hverjir skelltu sér svo í sund eftir góðan dag í brekkunni, fóru út að borða og fengu sér Brynjuís. Nemendur gistu í íþróttasal KA heimilisins þar sem vel fór um alla. Á laugardagskvöldinu var haldin kvöldvaka þar sem farið var í ýmsa hópeflisleiki sem þjöppuðu hópnum saman og kynntust nemendur á annan hátt en við hefðbundnar aðstæður í skólanum. Með í ferðina fóru Þorgerður lífsleiknikennari og Kristín Huld námsráðgjafi. Heimkoma var um ellefuleytið á sunnudagskvöldið og voru flestir orðnir lúnir en sællegir. Ferðin var einstaklega vel heppnuð og eiga nemendur og nefnd íþróttafélagsins hrós skilið.