Verzló nemendur upplifa spænska menningu

Vikuna 23.-30. september tóku tíu nemendur á öðru ári í Verzlunarskóla Íslands þátt í Erasmus+ verkefni, þar sem þeir fóru í skólaheimsókn til Torredembarra á Spáni.

Tveir kennarar frá Verzlunarskólanum fylgdu með í för, og dvöldu nemendurnir hjá spænskum jafnöldrum og fjölskyldum þeirra, sem höfðu heimsótt Ísland síðastliðið vor.

Í gegnum verkefnið fengu nemendurnir einstakt tækifæri til að upplifa spænskan skóladag, fjölskyldulíf og menningu. Þeir náðu einnig að æfa sig í spænsku, bæði í tali og skilningi, sem styrkti tungumálakunnáttu þeirra.

Dagskrá heimsóknarinnar var fjölbreytt og spennandi, skipulögð af skólanum í Torredembarra. Nemendur skoðuðu meðal annars sögufrægar slóðir Rómverja, þar á meðal hringleikahús, heimsóttu munkaklaustur uppi í fjöllunum og nutu leikinnar leiðsagnar á einfaldri spænsku.

Ferðin heppnaðist afar vel, og var sérstaklega ánægjulegt að sjá hvernig nemendur, sem komu úr mismunandi bekkjum Verzlunarskólans, nutu þess að kynnast og mynda ný vinatengsl.

Aðrar fréttir