16.06.2015 Við lok innritunar Nú er innritun í framhaldsskóla lokið og vonandi fara sem flestir sáttir út í sumarið. Aðsókn að Verzlunarskólanum var mjög mikil í ár og sóttu 555 um skólann sem val 1 og 140 val 2. Enginn nemandi sem valdi skólann sem val 2 innritaðist, einfaldlega vegna þess að þeir voru með nógu háar einkunnir til að komast í þann skóla sem var val 1. Lang flestir nemendur voru teknir inn á grundvelli einkunna, þá var reiknuð meðaleinkunn fjögurra greina, þ.e. íslenska og stærðfræði, sem hafa tvöfalt vægi, og síðan tvær hæstu af dönsku (eða öðru norðurlandamál), ensku, náttúrufræði og samfélagsfræði. Síðan var ákveðinn hópur tekinn inn á öðrum forsendum. Umsækjendur koma frá 66 mismunandi grunnskólum á landinu en þeir sem voru teknir inn koma frá 52 grunnskólum. Nú var í fyrsta sinn tekið inn á brautir og niðurstaðan var eftirfarandi: · alþjóðabraut 1 bekkur · nýsköpunar- og listabraut 1 bekkur · náttúrufræðibraut 5 bekkir · viðskiptabraut 3 bekkir Af þeim sem völdu skólann sem val 1 voru 322 með einkunn 9,0 eða hærra. Meðaleinkunn umsækjenda var 9,0 og meðaleinkunn þeirra sem voru teknir inn var 9,4. Af þeim nemendum sem var hafnað voru rúmlega 60 með einkunn 9,0 og hærra. Þessar háu einkunnir valda nokkrum heilabrotum og eðlilegt að skólafólk og aðrir áhugasamir spyrji sig hvert stefni í þessum efnum. Er örugglega verið að leggja réttan mælikvarða á hæfni nemenda við lok grunnskólans. Frá því að samræmdu prófin voru aflögð hafa einkunnir hækkað mjög mikið. Sem dæmi má nefna að ef bornar eru saman einkunnir nýnema Verzlunarskólans árið 2004 við nýnema 2014, þá hefur orðið mjög mikil breyting á einum áratug. Árið 2004 sóttu 455 nemendur um skólann sem val 1 en 485 árið 2014. Meðaleinkunn nýnema í stærðfræði árið 2004 var 7,8 á samræmdu prófunum og 8,1 í skólaeinkunn. 10 árum síðar var meðaleinkunn nýnema 9,2 í stærðfræði í skólaeinkunn, en samræmd próf við lok grunnskóla hafa ekki verið haldin síðan 2008. Hér að neðan er samanburður á einkunnadreifingu nýnema Verzlunarskólans í stærðfræði, annars vegar árið 2004 og hins vegar 2014. Ekki er hægt að greina að nýnemar árið 2014 séu betri námsmenn en árið 2004. Fylgst hefur verið náið með námskröfum og námsgengi nemenda skólans og þar bendir fátt til þess að nemandi með 9,0 árið 2014 standi sig betur en nemandi með 8,0 árið 2004. Það er engum nemanda greiði gerður að gefa honum hærri einkunn en innistæða er fyrir. Hin síðari ár höfum við of mörg sorgleg dæmi þess að nemandi með einkunn upp á 9,0 og 9,5 í stærðfræði og íslensku í skólaeinkunn úr grunnskóla nái jafnvel ekki lágmarksviðmiðum í hvorugri greininni á sínu fyrsta ári í Verzlunarskólanum. Það er ótrúlegt að þessi einkunnaverðbólga eigi einungis við um nemendur sem sækja um Verzlunarskólann. Gaman væri að sjá hvernig þetta lítur út í öðrum skólum.