Danska

Íslendingar eiga stöðugt vaxandi þátt í erlendu samstarfi og þá ekki síst í samstarfi við Norðurlöndin, á flestum sviðum. Þörfin fyrir fjölbreyttari tungumálakunnáttu verður því jafnframt brýnni en á mörgum sviðum í norrænu samstarfi eru norrænu málin danska, norska og sænska tvímælalaust aðalsamskiptamálin. Saga Íslands og Danmerkur og sameiginlegur menningararfur landanna hefur skipað dönskukennslunni fastan sess í tungumálanámi íslenskra skólanema en dönskukunnáttan opnar Íslendingum síðan greiða leið til samskipta við Norðmenn og Svía. Góð færni í norrænum málum auðveldar okkur Íslendingum því virka þátttöku í norrænu samstarfi, t.d. í atvinnulífi, á sviði félagsmála, á sviði menningar og lista og þá ekki síst í námi. Í því sambandi má nefna að árið 2007 voru alls 1117 Íslendingar í framhaldsnám í Danmörku. Verzlunarskóli Íslands tekur mið af þessum aðstæðum í dönskukennslunni og hefur sett sér markmið í samræmi við það.

Lokamarkmið

Að nemendur:

  • geti notað málið sem tjáskiptatæki, bæði til að miðla og afla sér þekkingar
  • geti tileinkað sér almennt lesefni (dagblöð, tímarit, skáldrit o.s.frv.) og jafnframt notfært sér dönskukunnáttuna í nútíma upplýsingaöflun, t.d. á Netinu
  • hafi öðlast leikni í að tjá sig munnlega og skriflega
  • geti notað dönsku sér til gagns í öðrum greinum, t.d. við þekkingaröflun og við ritun heimildaritgerða
  • hafi þekkingu á dönsku þjóðlífi og geta nýtt sér þá þekkingu í samskiptum við Dani og aðra Norðurlandabúa
  • geti með þjálfun í fagmáli stundað nám á Norðurlöndum

Kennsluhættir

Danska (eða annað norðurlandamál) er skyldunámsgrein á fyrsta ári við Verzlunarskólann, eða DAN103 og DAN203. Auk þess tekur máladeildin fjórða áfangann DAN303.
Áhersla er lögð á sjálfstæð vinnubrögð og eru nemendur þjálfaðir í að nota orðabækur og kynna sér möguleika þeirra, einnig að afla sér upplýsinga af Netinu. Nemendum 4. bekkjar býðst nemendasamstarf við danska skóla þar sem danskir jafnaldrar koma í vikutíma til Íslands að hausti og Verzlunarskólanemar endurgjalda heimsóknina svo að vori. Er þessi nemendaskipti metin til einnar einingar og kallast áfanginn DAN221.

Námslýsing

Megináhersla er lögð á textalestur til að auka orðaforða og lesskilning. Nemendur eru þjálfaðir í mismunandi lestraraðferðum og þeir textar sem lagðir eru fyrir þyngjast stig af stigi til að efla færni nemenda í að lesa, skilja og byggja upp orðaforða. Lesnar eru skáldsögur, smásögur og ljóð, auk þess sem notað er efni úr tímaritum og dagblöðum og af Netinu.
Undirstöðuatriði danskrar málfræði eru rifjuð upp, eftir því sem ástæða er talin til og einstök erfið málfræðiatriði þjálfuð sérstaklega.
Ritfærni er þjálfuð með ýmiss konar æfingum og verkefnum í tengslum við lesefnið, þar sem bæði er lögð áhersla á skýr og ákveðin efnistök og innihald og einnig skapandi ritun.
Skilningur á mæltu máli er þjálfaður með ýmiss konar hlustunaræfingum af mynd- og hljóðböndum, sem tengjast efnislega því sem farið er í á hverjum tíma.
Áhersla er lögð á að þjálfa nemendur í að tala dönsku. Er það gert með ýmsum verkefnum, t.d. talæfingum eða stuttum fyrirlestrum og kynningum þar sem reynir á virka málnotkun og framsetningu. Kennslan fer fram á dönsku.
Nemendur eru hvattir til að afla sér upplýsinga og efnis sjálfir og er upplýsingatækni þjálfuð með gagnaöflun af Netinu.