Enska

Enska er kennd í öllum deildum Verzlunarskóla Íslands í öllum bekkjum. Fjöldi kennslustunda fer eftir áherslum og markmiðum hverrar deildar. Námsefnið er fjölbreytt en að nokkru leyti sniðið að þörfum atvinnulífsins í verslun og viðskiptum. Á seinni tveimur árunum glíma nemendur við efni sem er meira almenns eðlis ásamt efni sem tengist sérsviði þeirra eða deild. Verzlunarskólinn telur nauðsynlegt að nemendur fái eins mikla enskukennslu og kostur er, bæði vegna mikilvægi enskrar tungu á alþjóðavettvangi og þeirrar þýðingar sem hún hefur í hugsanlegu framhaldsnámi nemenda.
Mikilvægt er að nemendur átti sig á þeirri staðreynd að kunnátta í erlendum málum getur lagt grunn að skilningi, virðingu og umburðarlyndi milli manna og er mikilvæg forsenda farsælla samskipta og samvinnu við einstaklinga af öðru þjóðerni.

Lokamarkmið

Að nemendur:

  • geti skilið texta á háskólastigi sem samsvarar þeirri braut sem þeir velja sér
    og jafnframt beitt fyrir sig mismunandi lestrarlagi, s.s. nákvæmnislestri, yfirlitslestri og leitarlestri og viti hvenær hver aðferð er viðeigandi
  • geti tjáð sig skriflega með markvissri notkun orðaforða með mismunandi
    markhóp / viðtakanda í huga, á nokkuð lipru máli og þannig sýnt í verki aukið vald á ritmáli, þ.e. hafi fjölbreyttan orðaforða, orðatiltæki og orðasambönd á takteinum
  • geti skilið talað mál eins og það er notað við raunverulegar aðstæður – til dæmis í samræðum manna á milli, í fjölmiðlum, s.s. í fréttum, fræðsluþáttum og afþreyingarefni
  • geti talað óhikað og gert sig skiljanlega við sem fjölbreyttastar aðstæður í daglegu lífi, s.s. tekið þátt í og haldið uppi samræðum, skýrt munnlega frá eða gert grein fyrir því sem þeir hafa lesið, séð eða heyrt, geti leiðrétt sig og umorðað og beitt algengustu hik- og fylliorðum
  • geti beitt málnotkunarreglum almennt og nýtt sér hjálpargögn þegar þekkingu þrýtur
  • hafi almenna yfirsýn yfir menningu og mannlíf í enskumælandi löndum og geri sér grein fyrir gildi ensku sem alþjóðamáls og mikilvægi enskukunnáttu til frekara náms
  • þekki mun á bandarískri og breskri ensku, sérstaklega með tilliti til stafsetningar og algengustu orða og geri greinarmun á málnotkun
  • geti unnið sjálfstætt að þekkingaröflun (nýtt sér heimildir, uppflettibækur, fagbækur, margmiðlunartækni) og geri sér grein fyrir eigin ábyrgð á námi og framförum

Kennsluhættir

Kennsla fer að mestu leyti fram á ensku nema þegar málfræði er útskýrð. Í kennslustundum eru textar lesnir sem síðan eru annaðhvort þýddir, ræddir eða umorðaðir á ensku til að ganga úr skugga um að nemendur hafi skilið þá og geti nýtt sér orðaforða þeirra. Afleiddar myndir ýmissa orða í textanum eru ræddar til að auka orðaforða nemenda og skilning. Stílar eru þýddir af íslensku á ensku u.þ.b. einu sinni í viku og er þá sérstaklega vikið að málfræðiatriðum, orðatiltækjum og málvenjum sem eru ólíkar í íslensku og ensku. Margvísleg önnur skrifleg verkefni eru unnin í tengslum við námsefnið hverju sinni, svo sem stuttar greinargerðir, bréf og ritgerðir. Nemendur eru hvattir til að taka þátt í umræðum og eru einnig látnir koma fram fyrir bekkjarfélaga og gera stuttlega grein fyrir ýmsum málum. Hlustunaræfingar eru fyrst og fremst tengdar námsbókunum.