Þýska

Þýska er móðurmál tæplega 100 milljóna manna í Evrópu en það er um fjórðungur þegna Evrópusambandsins. Gegnir þýska því lykilhlutverki sem tunga Mið-Evrópubúa og er einnig það mál, sem flestir Austur-Evrópubúar tala sem annað tungumál.

Löndin sem tilheyra þýska málsvæðinu, Þýskaland, Austurríki og Sviss, eru mikilvæg viðskiptalönd okkar og þýskumælandi ferðamenn eru fjölmennastir þeirra erlendu gesta, sem sækja Ísland heim.

Markmiðið með þýskukennslunni er ekki aðeins að nemandinn öðlist kunnáttu og færni í tungumálinu, sér til gagns og ánægju, heldur einnig að hann hafi fengið nokkra innsýn inn í menningu og staðhætti þýskumælandi þjóða.

Lögð er áhersla á að öll vinna með málnotkun og málfræði komi markvisst inn á færniþættina fjóra: hlustun, lestur, talað mál og ritun. Miklu máli skiptir að nemendur öðlist jákvætt viðhorf til þýskunámsins og að máltilfinning þeirra sé örvuð. Með því er lagður traustur grunnur að málanámi.

Lokamarkmið eftir 12 einingar

Að nemendur:

  • hafi byggt upp virkan og óvirkan orðaforða, sem nýtist þeim til að skilja í meginatriðum skýrt talað daglegt mál með almennum algengum orðaforða
  • nái meginþræði í óstyttum bókmennta- og nytjatextum á almennu aðgengilegu máli og séu færir um að leita sér upplýsinga sjálfstætt í uppsláttarritum og á vefnum er þekking þeirra þrýtur
  • geti ófeimnir og óhræddir tjáð sig í ræðu og riti á málfræðilega allréttu máli við mismunandi aðstæður í daglegu lífi, þ.m.t. leitað almennra upplýsinga og veitt þær öðrum
  • hafi fengið nokkra innsýn í menningu, siði og venjur þýskumælandi þjóða, svo og þýskt skólakerfi og fjölmiðla
  • hafi öðlast reynslu af að vinna sjálfstætt og í samvinnu við aðra og geri sér grein fyrir miklvægi eigin vinnu til að ná árangri í námi

Lokamarkmið eftir 15 einingar

Að nemendur:

  • hafi byggt upp það mikinn virkan og óvirkan orðaforða, að þeir séu færir um að skilja í meginatriðum daglegt talmál (háþýsku) með almennum algengum orðaforða
  • geti skilið sér til gagns og gamans óstytta bókmennta- og nytjatexta af ýmsum toga á aðgengilegu máli
  • séu færir um að afla sér upplýsinga úr uppsláttarritum og af leitarvef, einnig um viðfangsefni annarra námsgreina
  • geti ófeimnir og óhræddir tjáð sig í ræðu og riti á málfræðilega allréttu máli við mismunandi aðstæður í daglegu lífi, miðlað eigin reynslu og skoðunum og fært nokkur rök fyrir skoðunum sínum
  • hafi fengið nokkuð haldgóða þekkingu á menningu, sögu og t.d. menntakerfi þýskumælandi þjóða
  • hafi öðlast reynslu af að vinna sjálfstætt og í samvinnu við aðra og geri sér grein fyrir mikilvægi eigin vinnu til að ná árangri í námi