Ársskýrsla 2023-2024

Lögð fram á aðalfundi 20. nóvember 2024.

Aðalfundur Foreldraráðs Verslunarskóla Íslands var haldinn miðvikudaginn  20. nóvember 2024, Sindri Sindrason var fundarstjóri og Nanna Ósk Jónsdóttir fundarritari. Þórunn Sigþórsdóttir formaður lagði fram skýrslu stjórnar og Jóhanna Helgadóttir lagði fram reikninga fyrir veturinn 2023-2024.

  • Dagskrá aðalfundar var skv. 4. gr. laga félagsins
  • Kosning fundarstjóra og fundarritara
  • Skýrsla stjórnar um störf hennar og starfsemi félagsins
  • Endurskoðaðir ársreikningar lagðir fram
  • Umræður um skýrslu stjórnar og ársreikning og afgreiðsla hans
  • Lagabreytingar
  • Starfsáætlun lögð fram til kynningar og afgreiðslu
  • Kosning í stjórn félagsins
  • Kosning tveggja skoðunarmanna reikninga

Eftirtaldir aðilar gáfu kost á sér í  stjórn Foreldraráðs veturinn 2024-2025:

  • Þórunn Sigþórsdóttir – í stöðu formanns
  • Nanna Ósk Jónsdóttir – í stöðu ritara
  • Jóhanna Helgadóttir – í stöðu gjaldkera

Þau Elsa Guðrún Jóhannesdóttir og Jón Kjartan Kristinsson gáfu kost á sér til skoðunarmanna reikninga árið 2023-24.

Bæði stjórn Foreldraráðs og skipun skoðunarmanna var samþykkt einróma á aðalfundi 20. nóvember 2024.

Fundir

Foreldraráð hélt fjóra formlega fundi á starfsárinu (frá 1. október 2023 – 30. september 2024), en sú hefð hefur skapast að allir meðlimir Foreldraráðsins eru boðaðir á fundi. Fundir voru haldnir 14. nóvember 2023, 1. febrúar 2024, 11. mars 2024, 5. september 2024, ásamt fjölda rafrænna samskipta.

Fundargerðir má finna á heimasíðu skólans ásamt skýrslu stjórnar.

Stjórnendur skólans hafa ávallt verið okkur innan handar og hafa sótt fundi með okkur sé þess óskað af Foreldraráðinu. Einn slíkur fundur var á árinu með Guðrúnu Ingu Sívertsen skólastjóra.  Einnig var fundað með forystu NFVÍ, forseti, formaður skemmtinefndar og formaður málfundafélagsins komu á fund með foreldraráðinu og sögðu frá félagslífinu og störfum þeirra.

Formaður Foreldraráðs eða staðgengill hans situr  fundi með skólanefnd skólans reglulega yfir veturinn.

Viðburðir og fræðsla

Formaður Foreldraráðs eða staðgengill hans kynnir árlega félagið fyrir foreldrum á svokölluðu Nýnemakvöldi sem skólinn heldur fyrir foreldra nýnema í byrjun hvers skólaárs.

Helstu viðburðir Foreldraráðs eru foreldrakvöld með fræðslu og skemmtidagskrá. Tveir slíkir fundir voru haldnir á tímabilinu.  Fyrri var Aðalfundur foreldrafélagsins, með  fræðslu og gamanmáli. Var hann haldinn þann 17. október 2023 þar sem rúmlega 300  foreldrar og forráðamenn mættu í Bláa salinn.  Gleðiskruddan flutti erindi um jákvæða sálfræði  og Ari Eldjárn lauk kvöldinu með gamanmáli.

Seinna foreldrakvöldið var haldið á vorönn 10. apríl 2024.  Þórdís Elva Þorvaldsdóttir Backman var með fræðslufyrirlestur um stafræn réttindi og Sóli Hólm sá um gamanmál. Milli 60-80 manns mættu á  viðburðinn, en það virðist vera minni mæting að meðaltali á vorfundi foreldrafélagsins.

Foreldrafélagið bauð í framhaldi af fyrirlestri Þórdísar Elvu nemendum upp á fyrirlestur frá henni á forvarnardegi og þar sem ekki var nema hluti nemenda sem komust þá bauð foreldrafélagið 2. bekk upp á fyrirlestur Þórdísar.  Það stóð til að bjóða einnig 1. bekkingum upp á fyrirlestur hennar en það náðist ekki fyrir skólalok á vorönn.  Var því ákveðið að bjóða upp á þann fyrirlestur á haustönn í staðinn, fyrir 2. bekk.

Ballgæsla

Foreldraráðið stóð ballvaktir á böllum skólans og auglýsti eftir foreldrum til aðstoðar. Foreldraráðið skipar ballstjóra sem heldur utan um vaktir og skipulag.  Elín Gréta Stefánsdóttir var í því hlutverki. Fleiri teppi voru keypt á ballvaktirnar.  Einstaklega góð mæting foreldra var á gæsluna á nýnemaballið eða um 30 manns og þökkum við kærlega fyrir þessa góðu þátttöku.

Gjafir og styrkir

Foreldraráðið styður þétt við bakið á svokölluðum edrúpotti sem félagslífsfulltrúar skólans halda utan um  og ræddi foreldrafélagið við stjórnendur skólans um að gefa einnig gjafir í pottinn og var það auðfengið.  Ákveðið var að bæta verulega í gjafir edrúpottsins, bæði til að efla forvarnir í skólanum og átti félagið uppsafnaðan pening frá Covid tímanum sem ákveðið var að setja að hluta til í þetta.  Gaf félagið 18 inneignarbréf í Kringluna að andvirði 15.000 kr. hvert, sex fyrir hvern árgang. Boðið var upp á þrjár pizzaveislur fyrir 2. og 3. bekk þar sem flestir blésu í áfengismæli og fyrir 1. bekk var dregið út, þar sem skylda er fyrir alla 1. bekkinga að blása. Ákveðið var að gefa einn Iphone fyrir nemendamótið og var í framhaldinu ákveðið að gefa þrjá nýja Iphone, einn fyrir hvern árgang á nýnemaballinu.  Skólinn gaf 18 matarkort, sex fyrir hvern árgang.  Var þetta vel auglýst á veggjum skólans með veggspjöldum sem nemendafélagið sá um og á skjá fyrir nýnemaballið og voru viðbrögð nemenda mjög jákvæð.

Gullið var haldið í fyrsta skiptið í vor, en það er skemmtun fyrir 1. árs nema sem bekkjarformenn 2007 árgangs sáu um og skipulögðu.  Gullið er haldið í Gullhömrum og mættu nemendur spariklæddir, borðuðu saman og var hver bekkur með skemmtiatriði.  Hver árgangur hefur núna sinn eigin viðburð á vorönn, 1. bekkingar Gullið, 2. bekkingar Peysufatadaginn og 3. bekkingar Galakvöld. Þar sem þetta var ákveðið á síðustu stundu ákvað foreldrafélagið að styrkja Gullið með því að greiða fyrir veislustjórn og skreytingar fyrir salinn.

Borðtennisborð hefur verið á marmaranum og verið vinsælt. Fjórir nýir borðtennisspaðar og borðtenniskúlur voru keyptar í október.

Greiðsluseðlar

Valfrjálsir greiðsluseðlar voru sendir í heimabanka forráðamanna og voru heimtur góðar líkt og undanfarin ár.  Þetta gerir foreldraráðinu kleift að styðja vel við ungmennin okkar hér í skólanum, með þeim hætti sem talið hefur verið upp hér að ofan.

Bryndís Klara

Það var stórt skarð höggvið í nemendahóp Verslunarskólans við fráfall Bryndísar Klöru Birgisdóttur, nemenda í 2. S sem lést eftir fólskulega árás á Menningarnótt.  Foreldraráðið var í nánu sambandi við skólayfirvöld um hvernig félagið gæti létt undir með aðstandendum.  Foreldraráðið sendi samúðarkort og blómaskreytingu með ljósmynd af Bryndísi Klöru, kerti og kertastjaka til foreldra og systur hennar.  Þá sendi Foreldraráðið krans í jarðarförina frá nemendum og foreldrum, með minningarorðum sem vinkona Bryndísar Klöru valdi.  Ákveðið var að foreldrafélagið styrkti minningarsjóð um Bryndísi Klöru og að keyptur yrði bekkur til minningar um hana sem settur yrði fyrir utan skólann, hugmynd sem Hulda Írisar Skúladóttir í foreldraráðinu kom með.

Komandi skólaár

Hér gefur að líta þau viðfangsefni sem stefnt er að á skólaárinu 2023-2024:

  • Öll hefðbundin störf Foreldrafélagsins
  • Taka þátt í að efla félagslíf skólans
  • Halda reglulega fundi með stjórnendum skólans
  • Veita nemendum enn meiri stuðning í formi fræðslu
  • Efla sjálfstyrkingu nemenda með námskeiðum eða fyrirlestrum í samstarfi við skólann
  • Halda foreldrakvöld með framúrskarandi fræðslu og skemmtun
  • Efla edrúpottinn enn frekar
  • Hafa gaman saman – góð samskipti í allar áttir.
Fésbókarsíða

Foreldraráðið hefur nú haldið úti virkri fésbókarsíðu undanfarin ár. Markmið hennar er að gera störf foreldraráðsins sýnilegri, miðla fréttum og fróðleik eftir því sem við á. Enn fremur að skapa vettvang til samráðs og jákvæðra skoðanaskipta foreldra.  Foreldrar mega endilega vera duglegir að koma til okkar jákvæðum fréttum og áhugaverðum ábendingum er snerta málefni nemenda og foreldra.

Lokaorð

Ég vil þakka einstöku og hugmyndaríku Foreldraráði fyrir mjög gott samstarf á skólaárinu sem er að líða, ásamt þökkum til skoðunarmanna okkar. Einnig þakka ég stjórnendum skólans fyrir gott samstarf og leiðsögn sem og félagslífsfulltrúum skólans sem eru tengiliðir okkar við nemendafélagið.

Við hvetjum foreldra til að senda okkur í foreldraráðinu hugmyndir af fyrirlestrum fyrir nemendur eða annað sem tengist foreldrum og nemendum.  Einnig vil ég þakka foreldrum fyrir góða þátttöku á foreldrakvöldum.

Reykjavík, nóvember 2024
Þórunn Sigþórsdóttir
formaður Foreldraráðs