Saga Verzlunarskóla Íslands

Danska þingið samþykkti árið 1854 lög sem veittu Íslendingum fullt verslunarfrelsi. Verslunarstéttin minntist þessara tímamóta með veglegu samsæti 15. apríl 1904.

Sagan okkar

  •  
    1. Yfirlitsmynd frá Reykjavík

    1984

    Verslunarfrelsi

    Danska þingið samþykkti árið 1854 lög sem veittu Íslendingum fullt verslunarfrelsi. Verslunarstéttin minntist þessara tímamóta með veglegu samsæti 15. apríl 1904. Þar flutti Brynjólfur H. Bjarnason kaupmaður ræðu og fjallaði um mikilvægi þess að stofnaður yrði verslunarskóli á Íslandi. Tilraunir höfðu verið gerðar til að koma á fót slíkum skóla en þær höfðu ekki heppnast sem skyldi. Verslunarmannafélag Reykjavíkur tók skólamálið upp á sína arma og fékk Kaupmannafélag Reykjavíkur til liðs við sig. Þetta bar árangur.

  •  
    Vinaminni

    1905

    Skólinn stofnaður

    Verzlunarskóli Íslands (VÍ) tók til starfa og Ólafur G. Eyjólfsson, verslunarmaður, var ráðinn skólastjóri. Fyrsta skólaárið var skólinn til húsa í Vinaminni við Mjóstræti 3. 47 nemendur hófu nám og skiptist skólinn í tvær deildir, undirbúningsdeild og neðri deild. Að auki hófu sjö nemendur nám í tungumáladeild skólans sem aðeins var starfrækt einn vetur. Deildaskiptingin var gerða eftir kunnáttu nemenda, með sérstakri áherslu á reikningskunnáttu. Enginn nemandi þótti hæfur til að setjast í efri deild og var henni því ekki komið á laggirnar fyrr en árið 1906.

  •  

    1906

    Skólinn flytur í annað húsnæði

    Verzlunarskólinn flutti í Melsteðshús, við Austurstræti, en var þar aðeins einn vetur. Sama ár hóf efri deild skólans, göngu sína.

  •  

    1907

    Fyrsti dúx skólans

    Fyrsti hópur nemenda útskrifaðist. Stofnun Verzlunarskóla Íslands hafði jákvæð áhrif á jafnréttisbaráttu í landinu því að bæði stúlkur og piltar höfðu jafnan aðgang að skólanum og strax í upphafi skapaðist hefð fyrir því að stúlkur stunduðu nám við skólann og gæfu piltunum þar ekkert eftir. Fyrsti dúx skólans var Lovísa Ágústsdóttir Fjeldsted, sem útskrifaðist árið 1907. Stofnun skólans var einnig mikilvægur liður í sjálfstæðisbaráttu Íslendinga, þar sem aukin menntun í verslun og skrifstofustörfum gerði þjóðinni kleift að reka eigin verslun án utanaðkomandi aðstoðar. Haustið 1907 var skólinn til húsa í bakhúsi Thomsen-magasíns við Kolasund 1.

  •  
    Viljinn

    1908

    Fjörugt félagslíf nemenda

    Málfundafélag Verzlunarskóla Íslands (M.F.V.Í.) og skólablaðið Viljinn voru stofnuð. Félagslíf nemenda var með líflegra móti samanborið við aðra skóla á þessum tíma. Reglulega voru haldnar dansæfingar og fjölsóttur jóladansleikur.

  •  
    Efri deild skólans 1910

    1911

    Námið sett í fyrsta sæti

    Fyrsta starfsárið var aðeins kennt milli klukkan 8 og 10 á morgnana og var það gert til þess að nemendur gætu verið í fullri vinnu með náminu. Fljótlega þótti ljóst að námið yrði að hafa forgang og næstu árin lengdist daglegur skólatími. Skólaárið 1911–1912 var hann 6–7 klukkustundir á dag hjá efri deild og fjórar klukkustundir hjá neðri deild.

  •  

    1912

    Verzlunarskólinn flytur aftur

    Skólinn flutti í betra húsnæði við Vesturgötu 10A og var þar til ársins 1931.

  •  
    Nýr skólastjóri – Jón Sívertsen

    1915

    Nýr skólastjóri

    Jón Sívertsen tók við sem skólastjóri.

  •  

    1922

    Verslunarráð Íslands tekur yfir stjórn skólans

    Verslunarráð Íslands tók við yfirstjórn Verzlunarskólans.

  •  
    útskriftarnemendum með útskriftarhúfur (1927)

    1927

    Verzlunarskólinn fær gælunafn

    Undir lok þriðja áratugarins fór Verzlunarskóli Íslands að ganga undir gælunafninu Versló. Veturinn 1927-28 virtist það vera orðin almenn venja meðal nemenda að tala um Versló í stað þess að segja Verzlunarskólinn.

  •  
    Skólahúsið á Grundarstíg

    1931

    Nýtt húsnæði og nýr skólastjóri

    Skólinn flutti að Grundarstíg og Vilhjálmur Þ. Gíslason tók við sem skólastjóri. Við flutninginn að Grundarstíg breyttist margt. Fram að því höfðu nemendur skólans aldrei verið fleiri en 100. Þegar hart var í ári fjárhagslega, t.d. á krepputímum fyrri heimsstyrjaldar, voru nemendur skólans aðeins rúmlega 50 talsins. Við flutninginn og með nýjum skólastjóra fór smám saman að komast betri mynd á félagslíf nemenda. Sama ár fól Verslunarráð Íslands sérstakri skólanefnd, sem skipuð var fulltrúum úr viðskiptalífinu, stjórn skólans.

  •  
    Nemendamót – leikritið árið 1933

    1932

    Fyrsta nemendamótið

    Fyrsta nemendamótið var haldið að frumkvæði Vilhjálms Þ. Gíslasonar skólastjóra.

  •  

    1933

    Verzlunarskólablaðið kemur út og framhaldsdeild stofnuð

    Verzlunarskólablaðið kom út í fyrsta skipti og framhaldsdeild tók til starfa við skólann og var hún sérstaklega hugsuð fyrir nemendur sem vildu stunda verslunarstörf samhliða námi.

  •  

    1934

    Skólanefnd tekur við yfirstjórn skólans

    Ný skipulagsskrá var samþykkt þar sem skólanefnd tók formlega við stjórn skólans.

  •  

    1939

    Nemendasambandið tekur til starfa

    Nemendasamband Verzlunarskóla Íslands var stofnað með það markmið að efla vináttu og samkennd brautskráðra nemenda. Nemendasambandið hefur frá upphafi staðið fyrir árlegri samkomu þar sem afmælisárgangar skólans koma saman og skemmta sér.

  •  
    Lærdómsdeild skólans tekur til starfa 1943

    1943

    Lærdómsdeild tekur til starfa

    Lærdómsdeild VÍ var stofnuð með það markmið að veita nemendum möguleika á að ljúka stúdentsprófi. Með tilkomu Lærdómsdeildarinnar fékk skólinn á sig metnaðarfyllra yfirbragð.

  •  
    Fyrstu fastráðnu kennararnir

    1944

    Fyrsti kennarinn fær fastráðningu

    Fyrsti kennari skólans fékk fastráðningu, en fram að því höfðu allir kennarar verið stundakennarar. Sama ár var Kennarafélag Verzlunarskólans stofnað. Á næstu árum voru gerðar ýmsar endurbætur á kennslunni.

  •  
    Vilhjálmur Þ. útskrifar fyrsta sdtúdentinn

    1945

    Fyrstu stúdentarnir útskrifast

    Fyrstu stúdentarnir útskrifuðust frá Verzlunarskólanum. Í útskriftarhópnum voru sjö piltar. Árið eftir útskrifuðust 15 nemendur, 12 piltar og þrjár stúlkur.

  •  
    Jón Gíslason, skólastjóri

    1953

    Nýr skólastjóri - Dr. Jón Gíslason

    Dr. Jón Gíslason tók við stöðu skólastjóra og lagði hann mikla áherslu á að gera skólann nútímalegan og vel tækjum búinn.  Dr. Jón lagði einnig mikið upp úr því að kynna sér verslunarskóla erlendis og tók kennara með sér á ráðstefnur svo að þeir gætu kynnt sér nýjustu kennslutækni. Samhliða því sem námið varð öflugra efldist félagslíf nemenda einnig. Ýmsir klúbbar voru stofnaðir í skólanum, s.s. kvikmyndaklúbbur og radíóklúbbur. Dansleikir voru vel sóttir og útgáfa skólablaðanna efldist.

  •  

    1963

    Nýtt skólahúsnæði við Þingholtsstræti

    Aðbúnaður nemenda batnaði enn frekar þegar fyrsti áfangi að nýju skólahúsnæði við Þingholtsstræti var tekinn í notkun.

  •  
    Gamli skólinn og Vélritunarhúsið

    1966

    Kynjahlutfall

    Verzlunarskólinn eignaðist sitt þriðja hús, vélritunarhúsið við Hellusund. Þá voru nemendur í verslunar- og lærdómsdeild skólans orðnir 483. Kennarar við skólann voru 33. Mjög misjafnt var milli árganga hver hlutföllin voru milli pilta og stúlkna í skólanum. Árið 1957 voru til að mynda aðeins 16 stúlkur í 4. bekk en 50 piltar, en árið 1960 var kynjahlutfallið nokkuð jafnt, 34 stúlkur og 36 piltar. Á síðustu fjórum árum 6. áratugarins útskrifuðust alls 289 nemendur með verslunarpróf. Í þeim hópi voru 99 stúlkur og 190 piltar.

  •  

    1970

    Brautaskipting tekin upp

    Brautaskipting var tekin upp í fyrsta skipti í Verzlunarskólanum. Lærdómsdeild var þá skipt í hagfræðideild og máladeild.

  •  

    1979

    Nýr skólastjóri - Þorvarður Elíasson

    Þorvarður Elíasson tók við stöðu skólastjóra. Á næstu árum voru gerðar töluverðar breytingar á námi við skólann.

  •  

    1980

    Tölvufræði verður hluti af kennslu

    Kennsla í tölvufræði hófst við skólann.

  •  

    1981

    Ákvörðun um nýtt skólahúsnæði

    Ákvörðun var tekin um að reisa nýtt húsnæði fyrir skólann á óbyggðu svæði við Ofanleiti í Reykjavík

  •  

    1983

    Verslunarmenntadeild stofnuð

    Verslunarmenntadeild tók til starfa fyrir nemendur sem höfðu lokið verslunarprófi en ekki náð tilskilinni lágmarkseinkunn til að komast í Lærdómsdeild. Sama ár hófust framkvæmdir við byggingu skólahúsnæðis við Ofanleiti.

  •  

    1984

    Stærðfræðideild stofnuð

    Stærðfræðideild Verzlunarskólans var komið á laggirnar.

  •  

    1986

    Skólinn flytur í nýtt húsnæði við Ofanleiti 1

    Í byrjun árs flutti Verzlunarskólinn úr húsnæði sínu við Grundarstíg, Hellusund og Þingholtsstræti í nýtt húsnæði við Ofanleiti 1. Skólinn hafði aldrei áður verið í húsnæði sem sérstaklega hafði verið hannað sem skólahúsnæði. Viðbrigðin voru því mikil og aðstaða bæði nemenda og kennara stórbatnaði. Sama ár gekk bókasafn skólans í endurnýjun lífdaga og nemendur fengu mjög góða lesaðstöðu í skólanum. Sama ár hóf Öldungadeild VÍ starfsemi sína og starfaði til ársins 1997.

  •  

    1988

    Tölvuháskóli Verzlunarskólans tekur til starfa

    Tölvuháskóli Verzlunarskólans, TVÍ, tók til starfa en hann var upphafið að Viðskiptaháskólanum sem síðar varð Háskóli Reykjavíkur. Um haustið 1988 voru 927 nemendur innritaðir í Verzlunarskólann og 869 stóðust próf um vorið.

  •  

    1997

    Nýjar námsbrautir

    Ný brautaskipting var tekin upp og gátu nemendur nú valið milli alþjóðadeildar og viðskiptadeildar auk þeirra þriggja deilda sem áður höfðu verið starfræktar.

  •  

    2001

    Fleiri námsbrautir bætast við

    Tölvu- og upplýsingabraut varð hluti af námsframboði skólans.

  •  

    2003

    Nemendafjöldi eykst

    Um haustið voru nemendur orðnir 1084, þar af 623 stúlkur og 461 piltur. Kennarar við skólann voru þá 83.

  •  

    2004

    Nýtt brautarkerfi tekið upp

    Nýtt brautarkerfi var innleitt í Verzlunarskólanum.

  •  

    2005

    Nýr skólastjóri – Sölvi Sveinsson

    Sölvi Sveinsson hóf störf sem skólastjóri Verzlunarskólans.

  •  

    2005

    Fjarnám hefst í Verzlunarskólanum

    Haustið 2005 fór fjarnám af stað við Verzlunarskóla Íslands af fullum krafti. Sigurlaug Kristmannsdóttir, kennslustjóri fjarnáms hafði umsjón með fjarnáminu. Í desember 2006 var fyrsti fjarnemandinn, Þórhallur Vigfússon útskrifaður með verslunarpróf frá Verzlunarskóla Íslands.  Þórhallur hóf nám haustið 2005 og lauk tilskildum áföngum til verslunarprófs á haustönn 2006.

  •  

    2007

    Nýr skólastjóri - Ingi Ólafsson

    Ingi Ólafsson hóf störf við Verzlunarskólann árið 1989 sem kennari. Árið 2000 var hann ráðinn sem aðstoðarskólastjóri þar til hann tók við starfi skólastjóra árið 2007.

  •  

    2015

    3ja ára nám tekið upp

    Um vorið var í fyrsta sinn innritað í skólann samkvæmt nýju skipulagi þriggja ára náms til stúdentsprófs. Boðið var upp á fjórar ólíkar brautir með mismunandi línum. Námið var sett upp sem 207 framhaldsskólaeiningar og lauk með stúdentsprófi á þriðja þrepi.

  •  

    2019

    NGK-bekkurinn (Norður-Atlantshafsbekkurinn) stofnaður

    Verzlunarskóli Íslands hóf að bjóða upp á nám í NGK (Norður Atlantshafsbekkurinn) frá og með skólaárinu 2019-2020 sem hluta af tilraunaverkefni í samstarfi við þrjá aðra skóla: Gribskov Gymnasium í Danmörku, GUX Sisimiut á Grænlandi og Miðnám á Kambsdali í Færeyjum. Verkefnið felur í sér að stofna einn alþjóðlegan bekk þar sem um 7 nemendur frá hverju landi fyrir sig sækja nám saman. Þeir stunda nám í hverju landi á mismunandi tímabilum – fyrst í Danmörku, síðan í Færeyjum og á Íslandi, og loks á Grænlandi. Námið fer fram samkvæmt danskri námskrá, og stúdentsprófið veitir sömu réttindi og próf frá dönskum framhaldsskóla.

  •  

    2019

    Verzlunarskóli Íslands hlýtur Grænfánann í fyrsta sinn

    Verzlunarskóli Íslands fékk sinn fyrsta grænfána afhentan þann 29. apríl síðastliðinn. Grænfáninn er viðurkenning sem er veitt skólum sem hafa staðist kröfur sem byggja á alþjóðlegum stöðlum verkefnisins, Skólar á grænni grein.

  •  

    2019

    Nýtt fagnám í verslun og þjónustu

    Verzlunarskólinn hóf að bjóða upp á fagnám fyrir starfandi verslunarfólk í samstarfi við Starfsmenntasjóð verslunar- og skrifstofufólks. Námið var 90 einingar og byggðist á blöndu af fjarnámi og vinnustaðanámi í fyrirtækjum.

  •  

    2020

    Skólastarf í skugga Covid-19

    Á meðan COVID-19 faraldurinn stóð yfir var skólastarf í Verzlunarskóla Íslands, eins og annars staðar, mjög takmarkað og aðlagað að sóttvarnarreglum. Kennsla fór að mestu leyti fram í fjarnámi með stafrænum lausnum eins og Teams. Hólfaskipting var notuð þegar nemendur komu í skólann, grímuskylda var viðhöfð á tímabilum og mikil áhersla lögð á sóttvarnir. Félagslíf skólans var lítið sem hafði mikil áhrif á bæði félagslega og námslega upplifun nemenda.

  •  

    2020

    Sálfræðingur ráðinn við skólann

    Í kjölfar aukinnar umfjöllunar um andlega heilsu var sálfræðingur ráðinn til starfa við skólann til að stuðla að vellíðan og velferð nemenda.

  •  

    2020

    Verzlunarskóli Íslands hlýtur jafnlaunavottun

    Verzlunarskólinn fékk jafnlaunavottun, markmið jafnlaunavottunar er að vinna gegn kynbundnum launamun og stuðla að launajafnrétti kynjanna á vinnumarkaði.

  •  

    2021

    Verzló vinnur Gettu betur

    Verzlunarskólinn sigraði úrslitaviðureign Gettu betur gegn Kvennaskólanum í Reykjavík með 31 stigum gegn 17. Í liði Verzló voru þau  Sigurbjörg Guðmundsdóttir, Eiríkur Kúld Viktorsson og Gabríel Máni Ómarsson.

  •  

    2021

    Verzlunarskóli Íslands hlýtur Grænfánann í annað sinn

    Verzlunarskóli Íslands fékk Grænfánann í annað sinn sem viðurkenningu fyrir árangur í umhverfismálum.

  •  

    2021

    Nýr skólastjóri - Guðrún Inga Sívertsen

    Guðrún Inga Sívertsen var ráðin í starf skólastjóra. Hún var fyrsta konan sem gegnir starfi skólastjóra Verzlunarskólans og jafnframt fyrsti verzlingurinn í því starfi.

  •  

    2021

    Jöfnun hlutfalls kynja í Verzlunarskólanum

    Í anda jafnréttissjónarmiða og umræðu um jafna stöðu kynjanna í samfélaginu, og þá sérstaklega stöðu drengja í skólakerfinu o.fl., var ákveðið að frá og með vori 2021 verði áfram tekið inn í skólann á grundvelli einkunna við lok grunnskóla, þó þannig að aldrei verði fleiri en 60% af einu kyni meðal nýnema.

  •  

    2022

    Verzlunarskóli Íslands hlýtur Grænfánann í þriðja sinn

    Verzlunarskóli Íslands fékk Grænfánann í þriðja sinn.

  •  

    2022

    Nemendafjöldinn hefur margfaldast og námsframboðið orðið fjölbreyttara

    Á þeim rúmlega hundrað árum sem liðin eru frá stofnun skólans hefur margt breyst. Nemendafjöldinn hefur margfaldast og námsframboðið orðið fjölbreyttara með hverjum áratuginum sem liðið hefur. Þó má segja að Verzlunarskólinn hafi á þessum hundrað árum viðhaldið þeim sérkennum sínum að vera framsækinn skóli sem jafnan hefur leitast við að bjóða upp á fjölbreytt nám sem svarar kröfum síns tíma. Um leið hefur ætíð verið lögð mikil áhersla á að nemendum líði vel í skólanum og yfirstjórn skólans hefur, einkum frá og með árinu 1931, lagt mikla áherslu á að félagslíf nemenda sé gott.

  •  
    Útskrift NGK

    2022

    Fyrsta brautskráning NGK-bekkjarins

    Alls brautskráðust 22 nemendur með danskt stúdentspróf og þar á meðal voru fimm íslenskir nemendur.

  •  

    2023

    Verzlunarskóli Íslands fær nýtt útlit

    Í upphafi árs hófust viðamiklar endurbætur á skólabyggingu Verzlunarskóla Íslands. Húsið var endursteinað með gráum tónum og öllum gluggum skipt út. Þessar breytingar færa Verzlunarskólanum nýja ásýnd og meira flæði og tenging myndaðist við viðbyggingu skólans.

  •  

    2023

    Verzlunarskólinn hlýtur viðurkenningu Jafnvægisvogarinnar

    Skólinn hlaut viðurkenningu fyrir að hafa jafnað kynjahlutfall í framkvæmdastjórn.

  •  

    2023

    Inntökuskilyrði aðlöguð fyrir nemendur með annað heimamál en íslensku

    Við inntöku gátu nemendur með annað heimamál en íslensku óskað eftir að íslenska fengi einfalt vægi, og í staðinn yrði tvöfalt vægi á annarri grein.

  •  

    2024

    Verzlunarskóli Íslands hlýtur Jafnvægisvogina í annað sinn

    Verzlunarskólanum var aftur veitt viðurkenning Jafnvægisvogarinnar fyrir jafnrétti í efsta stjórnendalagi.

  •  

    2024

    Samstarf um farsæld barna í viðkvæmri stöðu

    Skólinn tók þátt í samstarfi við Barnaverndarþjónustu Reykjavíkur, Lögregluna á höfuðborgarsvæðinu, Heilsugæsluna og framhaldsskóla í Reykjavík til að tryggja velferð barna í viðkvæmri stöðu.

 

Þú ert hér í dag, hvernig ætlar þú að setja þitt mark á sögu skólans?