Starfsfólk VÍ
Fréttir frá alþjóðasamstarfinu
Komdu í heimsókn á bókasafnið
Fjarnám
Jafnréttisáætlun Verzlunarskóla Íslands miðar meðal annars að því að auka almenna starfsánægju og bæta starfsanda. Jafnréttisáætlunin er unnin í samræmi við lög nr. 150/2020 um jafna stöðu og jafnan rétt kynjanna. Í Aðalnámskrá frá 2011 er jafnframt lögð áhersla á að starfshættir skólanna skuli mótast af umburðarlyndi og jafnrétti, lýðræðislegu samstarfi og ábyrgð.
Tilgangur jafnréttisáætlunar er að tryggja fyllsta jafnrétti allra á vinnustaðnum með það að markmiði að nýta hæfni, krafta og kunnáttu starfsmanna til fulls án þess að kynbundin mismunun eigi sér stað. Í 14. gr. laga nr. 150/2020 er sú skylda lögð á skólastjórnendur að þeir grípi til sérstakra aðgerða til að koma í veg fyrir að starfsfólk og nemendur skólans verði fyrir kynbundnu ofbeldi, kynbundinni áreitni og kynferðislegri áreitni á vinnustaðnum, skólanum og í félagsstarfi á vegum skólans. Í jafnréttisáætlun þessari skal tryggt að starfsmönnum sé ekki mismunað vegna kyns, trúarbragða, skoðana, þjóðernisuppruna, kynþáttar, kynhneigðar, litarháttar, efnahags, ætternis, fötlunar, aldurs og stöðu að öðru leyti.
Leitast skal við að starfslýsing í atvinnuauglýsingu höfði til allra og mismuni ekki á grundvelli kynferðis eða annarra þátta. Þegar birtar eru tölfræðilegar upplýsingar á vegum skólans skulu þær jafnan kyngreindar, eftir því sem við á.
Allir skulu njóta sömu möguleika til endurmenntunar, starfsþjálfunar og starfsþróunar. Endurmenntunarstefna skólans skal endurspegla slík markmið og aflað skal skipulega upplýsinga um endurmenntun starfsfólks. Leitast skal við að höfða til beggja kynja og mismuna ekki kynjunum hvað varðar þá starfsþjálfun, endurmenntun og starfsþróun sem í boði er á hverjum tíma.
Starfsfólki, óháð kyni, skal gert kleift að sinna tímabundinni fjölskylduábyrgð sem skapast af veikindum barna, maka eða foreldra. Ekki skal líta á það sem mismunun að tekið er tillit til kvenna vegna þungunar og barnsburðar.
Allir starfsmenn eiga rétt á að komið sé fram við þá af virðingu. Í 14. gr. laga nr. 150/2020 er sú skylda lögð á skólastjórnendur að þeir grípi til sérstakra aðgerða til að koma í veg fyrir að starfsfólk og nemendur skólans verði hvorki fyrir kynbundnu ofbeldi, kynbundinni áreitni eða kynferðislegri áreitni.
Telji starfsfólk sig verða fyrir ofangreindri áreitni og/eða hatursorðræðu má t.d. leita til trúnaðarmanna eða jafnréttisfulltrúa. Einnig er tilkynningargátt á heimasíðu skólans fyrir starfsmenn og nemendur.
Sem menntastofnun ber Verzlunarskóla Íslands að uppfylla 14. og 15. gr. laga nr. 150/2020 gagnvart nemendum sínum. Samkvæmt 22. gr. ber skólastjórnendum að koma í veg fyrir að nemendur verði fyrir kynbundnu ofbeldi, kynbundinni áreitni og kynferðislegri áreitni í skólanum eða í félagslífi á vegum hans. Skólinn setur sér það markmið að allir séu meðvitaðir um að kynferðisleg- og kynbundin áreitni er ekki liðin í skólanum. Fræðsla, forvarnir, fyrirlestrar og auglýsingar verða notaðar til að framfylgja og ná markmiðum skólans. Í upphafi hvers skólaárs munu stjórnendur ásamt jafnréttisfulltrúa taka stöðumat og skipuleggja komandi skólaár með tiliti til markmiða sinna.
Nemendur skulu fá fræðslu um jafnrétti í víðum skilningi. Að lágmarki helmingur af námsefni í lífsleikni á 1. ári skal fjalla um jafnrétti og kynjafræði. Í þeirri fræðslu skal leggja áherslu á styrkleika allra kynja, skyldur þeirra og réttindi. Á hverju skólaári fá þeir sem eru í forsvari fyrir nemendafélagið og gefa út efni til opinberrar birtingar leiðsögn um jafnrétti og mikilvægi þess að jafnréttis sé gætt í hvívetna. Einnig skal halda málþing/fyrirlestur/þemadag/ á hverju skólaári þar sem jafnrétti er til umfjöllunar. Jafnréttisfulltrúi, skólaráð, lífsleiknikennari og skólastjóri bera ábyrgð að á koma því til leiðar.
Mikilvægt er að nemendur, óháð kyni, komi fram fyrir hönd skólans. Félagslífsfulltrúar aðstoða stjórn nemendafélagsins við að ná því markmiði. Forsvarsmenn nemenda skulu taka saman tillögur til að halda hlut kynja jöfnum í nefndum og ráðum. Telji nemandi að jafnrétti sé brotið í Verzlunarskólanum skal hann leita til jafnréttisfulltrúa eða félagslífsfulltrúa sem í sameiningu finna hverju máli farveg.
Jafnréttisáætlun Verzlunarskóla Íslands á að vera í sífelldri þróun eins og önnur stefnumótun. Jafnréttisáætlunina ber að endurskoða samhliða starfsmannastefnu á 3 ára fresti.
Jafnréttisfulltrúi VÍ er Halldóra Ósk Hallgrímsdóttir.
Síðast uppfært 4. desember 2023