Kennslufræðileg stefna VÍ

Kennslufræðileg stefna Verzlunarskólans byggir á fjölbreyttu námsframboði á námsbrautum skólans. Lögð er áhersla á að námið þjóni breiðum hópi nemenda sem undirbúningur fyrir frekara nám og virkri þátttöku í samfélaginu. Kennsluhættir, námsefni og námsumhverfi byggja á grunnþáttum menntunar skv. aðalnámskrá framhaldsskóla sem stuðla að samfellu í námsframvindu og þroska nemenda.

Kennsluhættir

Lögð er áhersla á fjölbreytni í kennsluháttum og fléttast grunngildi skólans, hæfni, ábyrgð, virðing og vellíðan inn í nám nemenda skólans. Í kennslu er tekið mið af þörfum nemendahópsins og að verkefni sem lögð eru fyrir efli þroska, víðsýni og gagnrýna hugsun. Í námi sínu þjálfist nemendur í sjálfstæðum vinnubrögðum en einnig í markvissri og skipulagðri samvinnu. Með fjölbreytni í kennsluaðferðum og með því að gefa nemendum tækifæri til að sýna frumkvæði eykst ábyrgð þeirra og sjálfræði.

Með samblandi af fjarnámi og dagskólakennslu leitast skólinn við að vera í forystu í rafrænni miðlun námsefnis. Lögð er áhersla á að tæknin sé nýtt í samræmi við námsmarkmið og til að styðja kennslufræðileg markmið skólans, svo sem samvinnu, ábyrgð og sjálfræði nemenda.

Námsmat í skólanum endurspeglar fjölbreytta kennsluhætti og er markmið þess að veita leiðbeinandi upplýsingar um það hvernig markmiðum námsins hefur verið náð og örva nemendur til framfara. Þannig er þekking, leikni og hæfni metin með hliðsjón af viðmiðum í skólanámskrá.

Þróun kennsluhátta

Skólinn leggur áherslu á sjálfræði kennara og eru þeir hvattir til þess að þróa sig í starfi og sækja endurmenntun til að efla nýbreytni og faglegan metnað. Á hverju ári býður skólinn kennurum upp á markvissa fræðslu og þjálfun í nýjum kennsluháttum. Kennarar sem sinna þróunarstarfi býðst að sækja um styrki eða kennsluafslátt.

Kennsluteymi skólans hefur m.a. það hlutverk að móta kennslufræðilega stefnu skólans og stuðla að þróun kennsluhátta. Þar að auki starfa þrír deildastjórar við skólann sem eru leiðandi í framþróun í þverfaglegu samstarfi við fagstjóra.

Síðast uppfært í febrúar 2020